Körfubolti

Hefur trú á að kvenna­í­þróttir geti vaxið enn frekar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caitlin Clark vonar að kvennaíþróttir haldi áfram að vaxa.
Caitlin Clark vonar að kvennaíþróttir haldi áfram að vaxa. Thien-An Truong/Getty Images

Caitlin Clark hefur lokið leik í háskólakörfuboltanum í Bandaríkjunum. Hún yfirgefur sviðið sem stigahæsti leikmaður í sögu háskólaboltans, bæði karla- og kvenna megin. Ofan á það hefur hún hjálpað til við að brjóta hvert áhorfsmetið á fætur öðru.

Hin 22 ára gamla Clark hefur verið mikið í fréttum undanfarið enda verið að gera hluti sem hafa varla sést áður. 

Hún endaði háskólaferil sinn þegar lið hennar, Iowa Hawkeyes, tapaði fyrir Suður Karólínu-háskólanum í úrslitum, 87-75. Skoraði Clark 30 stig í leiknum en á háskólaferli sínum skoraði hún meira en 3900 stig.

„Öll geta séð áhorfstölurnar. Þegar þær fá tækifærið þá hafa kvennaíþróttir blómstrað og það er það svalasta við vegferð mína til þessa,“ sagði Caitlin eftir leik.

„Við byrjuðum tímabilið á að spila fyrir framan 55 þúsund manns. Við endum það á að spila fyrir framan samtals 15 milljónir. Þetta verður bara betra og mun aldrei stoppa.“

Clark trúir einnig að ef lagt er jafn mikið í kvennaíþróttir og karla þá muni þær halda áfram að blómstra. Það mun ýta kvennaíþróttum enn lengra í framtíðinni að hennar mati.

„Fólk mun muna eftir augnablikinu sem það deildi með börnunum sínum yfir leikjunum okkar. Það man eftir því hversu spenntur krakkinn var að sjá okkur spila. Það er frekar töff, það eru hlutirnir sem skipta mig mestu máli.“

Clark mun þó ekki spila aftur í háskólaboltanum heldur í WNBA-deildinni. Talið er næsta öruggt að hún fari fyrst í komandi nýliðavali og muni því spila með Indiana Fever á komandi leiktíð. Þá gæti hún farið með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikana í París síðar á árinu.


Tengdar fréttir

Buðu henni 697 milljónir fyrir að spila í karladeild

Tónlistarmaðurinn og viðskiptamógullinn Ice Cube vildi nýta sér ótrúlegar vinsældir körfuboltakonunnar Caitlin Clark og gefa henni risasamning fyrir að spila í 3 á 3 körfuboltadeildinni hans, Big3.

„Við höfum aldrei séð konu spila svona“

Vinsældir Caitlin Clark í Bandaríkjunum eru engu líkar en þessi 22 ára gamla körfuboltakona hefur breytt gríðarlega miklu með frábærri framgöngu sinni og um leið komið kvennakörfunni í sviðsljósið í bandarísku íþróttalífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×