Erlent

Vél frá Boeing snúið við eftir að vélar­hlíf rifnaði af í flug­taki

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rannsóknaryfirvöld vestanhafs hafa nú fjölda tilvika til rannsóknar þar sem vélar frá Boeing koma við sögu.
Rannsóknaryfirvöld vestanhafs hafa nú fjölda tilvika til rannsóknar þar sem vélar frá Boeing koma við sögu. AP/Ted S. Warren

Samgönguyfirvöld í Bandaríkjunum hafa hafið enn eina rannsóknina er varðar flugvél frá Boeing, eftir að flugmenn neyddust til að lenda vél frá fyrirtækinu í kjölfar þess að vélarhlíf rifnaði af í flugtaki.

Um var að ræða vél í eigu Southwest Airlines sem var að taka á loft frá alþjóðaflugvellinum í Denver í gær þegar atvikið átti sér stað. Vélin lenti örugglega á vellinum 25 mínútum eftir flugtak en á myndskeiðum má sjá hlífina blakta í vindinum.

135 farþegar og sex áhafnarmeðlimir voru um borð. Engan sakaði.

Samkvæmt Southwest Airlines er nú verið að skoða vélina en hún var tekin í notkun árið 2015. Flugfélagið hefur neitað því að svara hvenær síðasta öryggisskoðun fór fram.

Boeing flugvélaframleiðandinn hefur ekki átt sjö dagana sæla en ýmsar bilanir sem hafa orðið í vélum félagsins hafa ratað í fréttirnar síðustu misseri og raunar ár. Nú síðast voru Max 9 vélar fyrirtækisins í Bandaríkjunum kyrrsettar í kjölfar þess að hurðarlok losnaði í miðju flugi.

Fjöldi hópmálsókna hefur verið höfðaður á hendur fyrirtækinu vegna atviksins.

Þá vekur athygli að flugmálayfirvöld vestanhafs rannsaka nú einnig að minnsta kosti þrjú önnur tilvik þar sem Boeing-vélum í eigu Southwest Airlines var snúið við eftir að áhöfnin tilkynnti um vélarbilun. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×