Viðskipti innlent

Hagnaðardrifin leigufélög umsvifamest í ná­grenni höfuð­borgar­svæðis

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Um 27 prósent allra gildra leigusamninga í leiguskránni eru vegna íbúða sem eru leigðar út af einstaklingum, en 27 prósent þeirra eru vegna íbúða sem eru leigðar út af leigufélögum sem eru rekin í hagnaðarskyni.
Um 27 prósent allra gildra leigusamninga í leiguskránni eru vegna íbúða sem eru leigðar út af einstaklingum, en 27 prósent þeirra eru vegna íbúða sem eru leigðar út af leigufélögum sem eru rekin í hagnaðarskyni. Vísir/Vilhelm

Hlutfall leiguíbúða sem reknar eru af hagnaðardrifnum leigufélögum er hærra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en í öðrum landshlutum samkvæmt upplýsingum úr leiguskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Í frétt á vef HMS segir að leiguskráin telji nú um 23 þúsund samninga, þar af séu 20 þúsund í gildi þessa stundina. 

Fram kemur að alls hafi um 855 samningar tekið gildi í marsmánuði, en að jafnaði hafi um þúsund samningar bæst við leiguskrána í hverjum mánuði síðan í október í fyrra.

Á myndinni hér að neðan sést þróun gildra samninga í leiguskrá, en nokkur munur er á nýskráningum samninga eftir mánuðum. Það má rekja til þess að flestir samningar taki gildi í kringum byrjun skólaársins í ágúst.

Þá segir að um 27 prósent allra gildra leigusamninga í leiguskránni séu vegna íbúða sem eru leigðar út af einstaklingum, en 27 prósent þeirra séu vegna íbúða sem eru leigðar út af leigufélögum sem eru rekin í hagnaðarskyni. 

Tæpur helmingur leigusamninga í leiguskrá séu hjá leiguíbúðum sem reknar eru á félagslegum forsendum, en þar eru íbúðir í eigu ríkis, sveitarfélaga, og húsnæðissjálfseignarstofnana.

Fram kemur að tegund leigusala sé breytileg eftir landshlutum, en samkvæmt leiguskránni hafa hagnaðardrifin leigufélög mun sterkari ítök í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins heldur en annars staðar á landinu. 

Líkt og myndin hér að neðan sýnir er meirihluti leiguíbúða í leiguskrá í nágrenni höfuðborgarsvæðisins í eigu hagnaðardrifinna leigufélaga, á meðan slíkar íbúðir eru aðeins fimmtungur af íbúðum í leiguskrá á höfuðborgarsvæðinu.

Lok segir að leiguskrá HMS bendi til þess að félagslegar leiguíbúðir séu hlutfallslega fáar í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, en hlutfall slíkra íbúða er helmingi minna þar en í öðrum landshlutum. 

Minni munur sé hins vegar á hlutfalli leiguíbúða í eigu einstaklinga, en það nær 23 prósentum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, 29 prósentum á höfuðborgarsvæðinu og 30 prósentum á landsbyggðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×