Innlent

Níu svæði í Grinda­vík girt af

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ljóst er að lokanirnar hafa áhrif íbúa Grindavíkurbæjar, sér í lagi við Sunnubraut og Kirkjustíg.
Ljóst er að lokanirnar hafa áhrif íbúa Grindavíkurbæjar, sér í lagi við Sunnubraut og Kirkjustíg. Grindavíkurbær

Búið er að girða af níu svæði í Grindavík sem talin eru hættuleg og vísbendingar eru um holrými. Það var gert um helgina í kjölfar niðurstaðna jarðkönnunnarverkefnis almannavarna. Verkefnastjóri segir vísbendingar um að fleiri svæði í bænum séu verr farin.

Frumniðurstöður úr fyrsta fasa jarðkönnunarverkefnis almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra liggja nú fyrir. Í þessum fyrsta fasa voru götur í vesturhluta Grindavíkurbæjar, það er vestan Víkurbrautar, sjónskoðaðar og mældar með jarðsjám sem ná niður á 4 - 4,5 metra dýpi. 

„Við förum hratt yfir með cobra jarðsjá sem sér grunnt og svo förum við yfir með dýpri jarðsjá á þeim stöðum þar sem við sjáum vísbendingar um sprungur eða holrými,“ segir Hallgrímur Örn Arngrímsson, verkefnastjóri jarðkönnunar hjá Verkís.

„Og það sem hefur komið í ljós er að í vesturbænum eru níu staðir sem við þurfum að skoða betur og munum skila þeim niðurstöðum til almannavarna. Í þessari viku vinnum við að því að segulmæla á þeim svæðum sem gefa okkur betri mynd af því sem er að gerast og í framhaldinu er tekin ákvörðun um hvort það þurfi að fara í mótvægisaðgerðir á svæðinu.“

„Allt á hreyfingu þarna ennþá“

Verkís sér um jarðkönnunina fyrir hönd almannavarna en það er svo í höndum bæjarstjórnar Grindavíkur að ákveða hvað er gert í framhaldinu  við niðurstöðurnar. Um helgina voru nokkur svæði í Grindavík girt af. 

„Við erum náttúrulega bara að sjá um jarðkönnunina og ráðleggjum almannavörnum og bænum hvað sé best að gera á hverjum stað,“ segir Hallgrímur.

„Hvort það sé girt af eða hvort það sé farið í að fylla í sprungur, grafa upp eða laga vegi eða hvort staðirnir séu settir í vöktun, einhverskonar gjörgæslu þar sem er fylgst með því, það er náttúrulega allt á hreyfingu þarna ennþá.“

„Út frá þessum niðurstöðum sem við erum að skila er hægt að sjá á hvaða dýpi þessi holrými eru og hvort þau liggja á virkum sprungum. Svo þarf að meta hættuna á hverjum stað miðað við hvaða umferð er, hvort það sé bílaumferð eða fótgangandi. Það verður gert einhverskonar áhættumat sem stýrir því hvort það sé ásættanlegt hvort fólk búi í bænum eða ekki.“

Önnur svæði í bænum verr farin

Hallgrímur segir vesturhlutann, það svæði sem búið er að fara yfir, í raun betur farin en restina af bænum.

„Við erum að skoða mikið fyrir norðan Austurveginn. Þar erum við að sjá fleiri vísbendingar heldur en við sjáum í vesturhlutanum. Við stefnum á að skila niðurstöðunum þaðan fljótlega eftir páska. Svo erum við að skoða hafnarsvæðið líka, á því svæði erum við að sjá einhverjar vísbendingar en ekki jafn mikið og norðanmegin,“ segir Hallgrímur Örn Arngrímsson, verkefnastjóri jarðkönnunar í Grindavík .

Unnið að mótvægisaðgerðum

Á vef Grindavíkurbæjar segir að ljóst sé að lokanirnar hafi áhrif á íbúa Grindavíkurbæjar, sér í lagi við Sunnubraut og Kirkjustíg. 

Þá er tekið fram að kappkostað sé að vinna í mótvægisaðgerðum þannig að hægt verði að koma umferð á þau svæði sem í dag sæta lokunum sem allra fyrst. Íbúar sem eiga fasteignir sem sæta takmörkuðu aðgengi geta komið við hjá vettvangsstjórn í björgunarsveitarhúsinu við Seljabót 10 og rætt við öryggisstjóra á vettvangi um málið.

Eftirfarandi er mikilvægt fyrir íbúa að hafa í huga:

  •  Göturnar Sunnubraut og Kirkjustígur eru lokaðar vegna girðinga.
  •  Aðgengi að Laut og Dalbraut er um göngustíg frá Ásabraut.
  •  Aðgengi að Fornuvör er um flóttaleið frá Nesvegi
  •  Flóttaleið frá Ásabraut er lokuð öðrum en þeim sem búa við Fornuvör.
  •  Hringakstur um Glæsivellir/Ásvelli er lokaður.
  •  Víkurbraut er lokuð neðan frá Kvennó niður fyrir Sunnubraut.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×