Innlent

Missti stjórn á skapi sínu og dró upp hníf

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út vegna manns með hníf í Hagkaup.
Sérsveit Ríkislögreglustjóra var kölluð út vegna manns með hníf í Hagkaup. Hagkaup

Maður á þrítugsaldri var handtekinn í versluninni Hagkaup í Skeifunni í gærkvöldi eftir að hafa ógnað fólki með hnífi. Maðurinn missti stjórn á skapi sínu.  

Þetta segir Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Vísi um málið.

Hann segir manninn hafa verið einan að verki en engum varð meint af þessum tilburðum hans.

„Lögregla og sérsveit tryggði þennan mann bara hratt og örugglega,“ segir Skúli. Í nótt var greint frá því að mikill fjöldi ungra drengja hafi sést á vettvangi en Skúli segir ekkert benda til þess að þeir eigi hlut að máli.

Maðurinn er fæddur árið 2000. Hann er enn í haldi lögreglu og formleg skýrslutaka á enn eftir að eiga sér stað.

„Staðan á honum hefur verið með þeim hætti að það hefur allavega enn ekki verið rætt við hann.“

Búast megi við því að maðurinn verði yfirheyrður og honum sleppt í framhaldinu. Hann megi hins vegar búast við sektargerð vegna vopnaburðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×