Fótbolti

Pablo hélt í við Argentínu

Sindri Sverrisson skrifar
Pablo Punyed í baráttu við Nehuen Perez, leikmann Argentínu, í Philadelphia í Bandaríkjunum í gærkvöld.
Pablo Punyed í baráttu við Nehuen Perez, leikmann Argentínu, í Philadelphia í Bandaríkjunum í gærkvöld. AP/Matt Slocum

Pablo Punyed, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, og félagar hans í El Salvador urðu að sætta sig við 3-0 tap gegn stjörnum prýddu liði Argentínu í vináttulandsleik í fótbolta.

Pablo kom inn á sem varamaður í leiknum, á 65. mínútu, en það var of seint því Argentína hafði þá þegar komist í 3-0 og fleiri mörk voru ekki skoruð.

Tottenham-maðurinn Cristian Romero kom Argentínu yfir í leiknum og Enzo Fernández, leikmaður Chelsea, bætti við marki skömmu fyrir hálfleik. Annar Tottenham-maður, Giovani Lo Celso, skoraði þriðja mark Argentínu í leiknum snemma í seinni hálfleik.

Pablo fékk ekki tækifæri til að spila gegn Lionel Messi því Messi dró sig út úr argentínska landsliðshópnum. Þetta var hins vegar fyrsti landsleikur Pablos síðan í nóvember árið 2021. 

Þessi 33 ára miðjumaður heldur nú heim til Íslands og verður væntanlega klár í slaginn með Víkingum gegn Val í Meistarakeppni KSÍ mánudaginn 1. apríl. Keppni í Bestu deildinni hefst svo 6. apríl þegar Víkingar mæta Stjörnunni í fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×