Innlent

Flutninga­bif­reið á hliðinni undir Ingólfs­fjalli og lokar veginum austur

Hólmfríður Gísladóttir og Lovísa Arnardóttir skrifa
Vegfarandi segir flutningabifreiðina loka veginum austur.
Vegfarandi segir flutningabifreiðina loka veginum austur.

Flutningabifreið fór á hliðina undir Ingólfsfjalli nú fyrir stundu og þverar algjörlega leiðina austur. Lögregla er á vettvangi og bíður þess að bílinn verðir fluttur af veginum. Hjáleið er um gamla Suðurlandsveginn fyrir neðan hringveginn. 

„Það er rok og hann fauk á hliðina. Það er verið að vinna í því að færa hann,“ segir Frímann Baldursson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni á Selfossi, og að til þess þurfi stór vinnutæki. Um er að ræða um 40 feta gám sem festur var aftan á flutningabíl. Gámurinn var tómur.

„Þetta tekur líklega smá tíma en það er hjáleið framhjá og það eru engar tafir þannig séð. Fólk getur komist framhjá um gamla veginn,“ segir hann. Hjáleið er um gamla Suðurlandsveginn fyrir neðan hringveginn. Frímann sagðist ekki vita hvenær yrði hægt að opna aftur en að líklega þurfi tvo eða þrjá klukkutíma í verkið.

Hann segir mjög hvasst undir Ingólfsfjalli og að ökumenn svo stórra ökutækja ættu að meta stöðuna. Það það sé mikilvægt að fylgjast með veðurspá Veðurstofunnar.

Á umferðarvef Vegagerðarinnar segir:

„Trailer þverar Hringveginn (1) undir Ingólfsfjalli til austurs. Umferð er beint um hjáleið um gamla Suðurlandsveginn.“

Fréttin  hefur verið uppfærð eftir að fréttastofa náði tali af aðalvarðstjóra. Uppfærð 09:09 þann 22.3.2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×