Lífið

Sviptir hulunni af heimildar­mynd og sér um föstudagskvöldin á RÚV

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður stendur í ströngu þessa dagana.
Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður stendur í ströngu þessa dagana. Vísir/Vilhelm

Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður til margra ára segir fyndið símtal hafa orðið til þess að hann ákvað að taka að sér framleiðslu heimildarmyndar um Ásgeir Elíasson, einn sigursælasta fótboltaþjálfara landsins. Logi er nú að vinna í gerð fleiri heimildamynda og er í ritstjórn spurningaþáttanna Er þetta frétt? sem sýndir eru á föstudagskvöldum á RÚV.

Myndin ber heitið Ásgeir - Maðurinn með Hattinn. Hún verður sýnd í Sambíóunum Kringlunni í dag á sérstakri sýningu og fjallar um Ásgeir Elíasson sem lést fyrir aldur fram árið 2007. Ásgeir gerði Fram að stórveldi og vann glæsta sigra með íslenska landsliðinu.

„Ég fékk fyndið símtal frá Hemma þar sem hann sagði bara: „Ég fattaði allt í einu að ég hef engan tíma í þetta og svo kann ég þetta ekki. Getur þú hjálpað mér að klára þetta?“ segir Logi Bergmann Eiðsson í samtali við Vísi og vísar þar til Hermanns Guðmundssonar sem fékk hugmyndina að myndinni og framleiddi myndina með honum.

Logi segir Ásgeir vera goðsögn sem breytt hafi boltanum á Íslandi með áherslu sinni á sóknarleik og skemmtun. Sjálfur þekkti hann Ásgeir í gegnum störf sín sem íþróttafréttamaður á Ríkisútvarpinu.

„Ég hitti hann oft og tók mörg viðtöl við hann þegar ég var íþróttafréttamður. Hann var mjög almennilegur og afslappaður og var svolítið eins og Arnar Gunnlaugsson. Hann gaf sér alltaf tíma til þess að fara yfir málin með manni og ræða hluti.“

Plakat myndarinnar.

Minningin að gleymast meðal yngri kynslóðarinnar

Logi segir Hermann hafa orðið var við það að saga Ásgeirs væri að gleymast meðal yngri fótboltamanna. Hann hafi langað til að varðveita hana.

„Það eru þessi áhrif sem hann hafði, sérstaklega eins og hjá Fram. Fram á gullöld og hún hverfist eiginlega öll um tíma Ásgeirs. Þetta er tíminn þar sem þeir eru bara stórveldi á Íslandi,“ segir Logi.

Hann segir það ekki síst vegna þess andrúmslofts sem Ásgeiri og eiginkonu hans, Soffíu Guðmundsdóttur, betur þekkt sem Dedda, hafi tekist að skapa hjá félaginu.

„Þau hjónin voru bæði á kafi í þessu. Þetta var svona fjölskylduklúbbur og hópurinn alltaf svolítið þéttur. Það er líka hluti af því og þetta er fyrir þessar stóru breytingar sem verða í fótbolta þar sem menn eru keyptir og flakka á milli liða og svona. Það var miklu minna um það á þessum tíma.“

Frétt Stöðvar 2 frá 2007 um andlát Ásgeirs:

Gamlir liðsfélagar og mótherjar mæta í bíó

Logi segir tíma sinn sem íþróttafréttamaður hafa reynst vel við gerð myndarinnar. Hann hafi sankað að sér efni hjá Ríkisútvarpinu og fundið viðmælendur úr hópi liðsfélaga Ásgeirs, mótherja og úr fjölskyldunni hans.

„Hann hafði mikil áhrif á þá sem hann umgengst og það var mikil eftirsjá eftir honum og þeim báðum. Þannig að við ákváðum að hafa eina sýningu þannig að menn gætu komið saman og horft á þetta í bíó,“ segir Logi.

Ýmislegt á döfinni hjá Loga

Logi segist sjálfur hafa ýmislegt á döfinni á milli þess sem hann starfar fyrir Samtök sjávarútvegsfyrirtækja sem sérfræðingur í samskiptum og miðlum. Hann rifjar meðal annars upp gamla takta úr Gettu betur og Spurningabombunni í ritstjórn skemmtiþáttanna Er þetta frétt? á RÚV sem sýndir eru á föstudagskvöldum.

„Þetta hefur verið rosalega gaman. Ég hef alltaf verið spurninganörd í mér, þetta eru svona ákveðin element sem fara ekkert,“ segir Logi. Hann segir ýmislegt fleira á döfinni en gefur ekki upp nákvæmlega hvað.

„Ég er að vinna í einhverjum heimildarmyndum og svona, gera hitt og þetta bara. Ég er að vinna hjá SFS og svo þess á milli hef ég verið að nýta tímann í allskonar hluti. Ég hef voða gaman af þessu. Það er gaman að skapa og búa eitthvað til, þannig mér fannst þetta frábært verkefni.“


Tengdar fréttir

Logi Bergmann í banastuði á sveittum tónleikum Auðuns

Auðunn Lúthersson er mættur til landsins og tróð upp fyrir fullu húsi í Iðnó á laugardagskvöldið. Fremstur í flokki tónleikagesta var sjónvarpsmaðurinn Logi Bergmann sem skemmti sér konunglega.

Logi Bergmann aftur á skjánum

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson sneri aftur á sjónvarpsskjáinn í gærkvöldi þegar hann stýrði upphitunarþætti fyrir leik Manchester United og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á Símanum Sport í gærkvöldi.

Segist saklaus en sjá eftir að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks

Fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson segist saklaus af þeim ásökunum sem bornar hafa verið á hann um kynferðislegt ofbeldi í garð ungrar konu. Hann viðurkennir þó að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem hann hafi ekki átt að fara inn í.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.