Erlent

Tusk hyggst skipta út 50 sendi­herrum hægri­stjórnarinnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tusk hefur heitið nýjum og betri stjórnarháttum.
Tusk hefur heitið nýjum og betri stjórnarháttum. AP/Andrew Harnik

Stjórnvöld í Póllandi hafa afturkallað 50 sendiherra sína í viðleitni til þess að bæta alþjóðleg samskipti á viðsjárverðum tímum. Utanríkisráðuneytið segir aðgerðina nauðsynlega og utanríkisþjónustuna verða faglegri fyrir vikið.

Um er að ræða lið í umbótum Donald Tusk, sem nýlega tók við sem forsætisráðherra landsins, til að „leiðrétta“ ýmislegt sem þykir hafa farið miður á meðan öfl lengst til hægri voru við stjórnvölin.

Tusk segir endurnýjunin í utanríkisþjónustunni hins vegar ekki „hefnd“ gegn forverum sínum heldur sé nauðsynlegt að stjórnvöld geti reitt sig á trúa og trausta sendifulltrúa á tímum þegar nágrannaríkið Úkraína sé að verjast ásókn Rússa.

Stjórnvöld hafa ekki gefið upp um hvaða sendiherra er að ræða.

Svo kann að fara að forseti Póllands, Andrzej Duda, sem hefur sterk tengsl við fráfarandi öfl og hefur verið gagnrýninn á Tusk neiti að samþykkja skipan nýrra sendiherra í stað þeirra sem hafa verið afturkallaðir.

Þá kemur upp sú staða að næstráðendur taka við stjórn í sendiráðunum.

Forverar Tusk voru ítrekað gagnrýndir af Evrópusambandinu, til að mynda fyrir að grafa undan dómskerfinu og fyrir framgöngu sína gagnvart hinsegin fólki. Tusk, sem var áður forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur heitið því að „laga þetta allt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×