Innlent

Kópa­vogur skorar á Al­þingi að jafna at­kvæða­vægi milli kjör­dæma

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Indriði Sigurðson er bæjarfulltrúi Kópavogs.
Indriði Sigurðson er bæjarfulltrúi Kópavogs. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórn Kópavogs hefur skorað á Alþingi að jafna atkvæðarétt milli kjördæma. Sérstaklega halli á Suðvesturkjördæmi í þessu efni. 

Indriði Stefánsson bæjarfulltrúi Pírata lagði erindi þess efnis fyrir jafnréttis- og mannréttindaráð Kópavogs.  Málið var tekið fyrir í bæjarstjórn í gær

Indriði athugar í erindinu atkvæðafjölda á bak við hvern þingmann eftir kjördæmum. Niðurstaðan er eftirfarandi:

Miðað við óbreytta kjörskrá frá 2021 eru 4042 atkvæði á bak við hvern þingmann.

Eftir breytingar vegna atkvæðavægis eru í:

  • NV 3078 atkvæði á bak við hvern þingmann (76% af landsmeðaltali)
  • NA 2989 atkvæði á bak við hvern þingmann (73% af landsmeðaltali)
  • SU 3842 atkvæði á bak við hvern þingmann (95% af landsmeðaltali)
  • SV 5266 atkvæði á bak við hvern þingmann (130% af landsmeðaltali)
  • RS 4156 atkvæði á bak við hvern þingmann (103% af landsmeðaltali)
  • RN 4124 atkvæði á bak við hvern þingmann (102% af landsmeðaltali)

„Ég vil að við sendum út áskorun á Ríkisstjórn og Alþingi að það sé ótækt að Suðvesturkjördæmi sé það eina sem býr við skert atkvæðavægi,“ segir í erindinu.

Málinu var vísað til bæjarstjórnar til afgreiðslu í gær og var þar samþykkt einróma. Áskorun bæjarstjórnar segir: 

„Kjördæmakerfið á Íslandi býður upp á allt að tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu kjósenda og líður Suðvesturkjördæmi hvað mest fyrir misskiptingu atkvæða.

Bæjarstjórn Kópavogs skorar á Alþingi/innviðaráðherra/stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að gera viðeigandi breytingar á kosningalögum nr. 112/2021 í þeim tilgangi að jafna atkvæðavægi á milli kjördæma,“ segir í bókun bæjarstjórnar.


Tengdar fréttir

Misvægi atkvæða eftir búsetu gangi ekki árið 2022

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, vill gera vægi atkvæða milli kjördæma eins jafnt og stjórnarskrá heimilar. Það gangi ekki árið 2022 að vægi atkvæðis fari eftir því hvar viðkomandi búi á landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×