Innlent

Kol­brún tekin til starfa hjá Eurojust

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kolbrún tók til starfa á nýjum vettvangi í dag.
Kolbrún tók til starfa á nýjum vettvangi í dag. Eurojust

Kolbrún Benediktsdóttir hóf í dag störf sem fyrsti sendisaksóknari Íslands hjá Eurojust í dag. Hún segir um að ræða mikilvægt skref fyrir Ísland.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eurojust, sem er stofnun Evrópusambandsins á sviði ákærumála sem teygja sig yfir landamæri. Kolbrún kemur til með að gegna stöðunni til næstu þriggja ára.

„Það er mér mikill heiður að ganga til liðs við Eurojust sem fyrsti sendisaksóknari Íslands. Þetta er mikilvægt skref fyrir Ísland og ég er fullviss um að það muni reynast nauðsynlegt þegar kemur að ákæruvaldi milli landa og skipulagðri glæpastarfsemi,“ er haft eftir Kolbrúnu í tilkynningunni.

Kolbrún hefur frá árinu 2016 starfað sem varahéraðssaksóknari, þar sem hún stýrði ákærusviði 1 hjá embætti héraðssaksóknara. Sviðið fer með ákæruvald í málum sem varða alvarleg ofbeldisbrot, kynferðisbrot, stórfelld fíkniefnalagabrot og mansal. Hún stýrði einnig því sviði sem fer með rannsókn og saksókn í málum sem varða brot starfsmanna lögreglu svo dæmi séu nefnd. Á milli 2006 og 2015, starfaði Kolbrún sem saksóknari við embætti ríkissaksóknara.

Kolbrún hefur einnig starfað sem stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands, átt sæti sem varamaður í Félagsdómi og hefur frá árinu 2022 setið í réttarfarsnefnd dómsmálaráðherra.

Ísland er tólfta ríkið sem ekki er í Evrópusambandinu sem á saksóknara hjá Eurojust. Hin ellefu eru Albanía, Georgía, Moldóva, Svartfjallaland, Norður Makedónía, Noregur, Serbía, Sviss, Úkraína, Bretland og Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×