Erlent

Hrottafengnar lýsingar á morðinu á þrettán ára stúlkunni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mynd af rannsókn lögreglu í Danmörku.
Mynd af rannsókn lögreglu í Danmörku. EPA

Sautján ára piltur sem var handtekinn í kjölfar morðs á þrettán ára stúlku í smábænum Hjallerup á Norður-Jótlandi í Danmörku í gærkvöldi, er grunaður um að hafa orðið henni að bana.

Jafnaldra stúlkunnar var líka handtekin vegna málsins en hefur verið látin laus.

Danska ríkissjónvarpið greinir frá því að pilturinn sé grunaður um morðið sem er talið hafa átt sér stað á milli klukkan átta og tíu í gærkvöldi. Hann er grunaður um að hafa kæft stúlkuna, bundið hendur hennar og slegið hana með múrsteini í höfuðið.

Þar að auki er pilturinn talinn hafa nauðgað stúlkunni. Fram kemur að hann sé grunaður um brot á lagaákvæðum sem annars vegar varða samneyti við barn undir fimmtán ára aldri, og hins vegar að beita ofbeldi og hótunum til að neyða aðra manneskju til kynmaka.

Verjandi piltsins segir hann neita sök varðandi ásakanir um manndráp, en hann viðurkenni að hafa beitt ofbeldi sem hafi leitt til dauða stúlkunnar. Þá neitar hann að hafa nauðgað henni.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir fréttirnar átakanlegar. Hún sendir fjölskyldu stúlkunnar og aðra sem voru nákomnir henni sínar hlýjustu samúðarkveðjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×