Viðskipti innlent

SFF fá nýtt nafn en verða á­fram SFF

Atli Ísleifsson skrifar
Heiðrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.
Heiðrún Jónsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu. Aðsend

Samtök fjármálafyrirtækja, heildarsamtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hér á landi, hafa fengið nýtt nafn og munu hér eftir bera heitið Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Í tilkynningu segir að skammstöfun samtakanna verði áfram SFF og munu samtökin áfram bera heitið Finance Iceland á ensku. Nafnabreytingin var samþykkt einróma á félagsfundi SFF.

Haft er eftir Heiðrúnu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, að þeim þyki nýja nafnið endurspegla betur þann fjölbreytta hóp aðildarfélaga sem sé innan raða samtakanna, sem séu meðal annars sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki, tryggingafélög, bankar, félög í lánastarfsemi, eignastýringu, greiðslumiðlun og bakvinnslu fyrir fjármálamarkaði. 

„Með þessu náum við einnig betur utan um þá þjónustu sem aðildarfélög okkar veita landsmönnum á hverjum degi.

Við töldum einnig fara vel á því að kynna nýtt nafn samtakanna þegar við höldum upp á 150 ára afmæli innlendrar löggjafar um fjármálaþjónustu hér á landi, en árið 1874 undirritaði Kristján IX. fyrstu tilskipunina um sparisjóðina í landinu, sama dag og hann staðfesti fyrstu stjórnarskrá Íslendinga. Á þessum tíma hafa fjármálastofnanir í landinu vaxið og dafnað með íslensku samfélagi og tekið ótrúlegum breytingum,“ segir Heiðrún.

Aðildarfélög SFF eru 25 en hjá þeim starfa um 3.300 starfsmenn. Samtökin urðu til í núverandi mynd árið 2006, en forverar samtakanna eiga sér mun lengri sögu. Sex sérfræðingar starfa á skrifstofu SFF.

Samhliða þessari breytingu hafa samtökin endurnýjað vörumerki og heimasíðu samtakanna sff.is þar sem finna má ýmsan fróðleik og gagnlegar upplýsingar sem tengjast fjármálaþjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×