Innlent

Ó­sátt með að fá ekki sæti í áhættunefnd borgarinnar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir áhættunefndina lið í skil­virkri fjár­mála­stjórn borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru því sammála, en eru ósátt með að fá ekki sæti í nefndinni. 
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir áhættunefndina lið í skil­virkri fjár­mála­stjórn borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks eru því sammála, en eru ósátt með að fá ekki sæti í nefndinni.  vísir/vilhelm

Reykjavíkurborg hefur skipað áhættunefnd borgarinnar til að efla fjármálastjórn borgarinnar. Fulltrúar Sjálsfstæðisflokks eru ósáttir við að eiga ekki fulltrúa í nefndinni.

Nefndarmenn eru borg­ar­stjóri, formaður borg­ar­ráðs, borg­ar­rit­ari og sviðsstjóri fjár­mála- og áhættu­stýr­ing­ar­sviðs. Í samtali við mbl.is segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri að skipun nefndarinnar sé einn liður í „efl­ingu fjár­mála­stjórn­ar borg­ar­inn­ar“. 

„Þetta tek­ur mið af öll­um veiga­mestu þátt­un­um sem ráða því hvort okk­ur geng­ur vel eða ekki, áhættu­stýr­ing er vel þekkt stjórn­un­ar­tæki sem mik­il­vægt er að sveit­ar­fé­lög, ríki og fyr­ir­tæki nýti sér og við erum bara að inn­leiða það,“ er haft eftir Einari. 

Sjálfsagt að minnihlutinn fái að vera með

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segist í tilkynningu vera sáttur við stofnun nefndarinnar. Eðlilegt sé að slík nefnd sé stofnuð „enda glímir borgin við fjárhagserfiðleika og ljóst að áhætta eykst eftir því sem skuldirnar vaxa“.

„Hins vegar teljum við sjálfsagt að minnihluti borgarstjórnar fái aðild að slíkri nefnd enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald,“ segir Kjartan. 

Tillaga þess efnis var hins vegar felld af fulltrúum meirihlutans á síðasta fundi borgarráðs. 

Skýtur skökku við

Í tillögunni segir að verkefni nefndarinnar verða ærin. 

„Þýðingarmikil gögn verða lögð fram á fundum hennar og þar gefast kjörnum fulltrúum dýrmæt tækifæri til fræðslu, kynningar og umfjöllunar. Hafa ber í huga að Borgarstjórn Reykjavíkur er fjölskipað stjórnvald og því er eðlilegt að þegar undirnefndir eru skipaðar á hennar vegum sé þess gætt að þar séu fulltrúar frá meiri- og minnihluta. Á þetta einkum við um nefndir með mikilvægt eftirlitshlutverk þar sem viðamikil gögn í þýðingarmiklum málum verða lögð fram,“ segir í tillögunni og enn fremur:

„Það skýtur því skökku við að borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kjósi að tveir fulltrúar meirihluta séu í áhættunefnd en enginn fulltrúi minnihluta. Slík afstaða brýtur gegn leikreglum um lýðræði og eðlilegan aðgang kjörinna fulltrúa að upplýsingum. Sú ákvörðun, að skipa aðeins fulltrúa meirihluta í áhættunefnd, er hluti af viðleitni meirihlutans að takmarka upplýsingagjöf um fjármál borgarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×