Handbolti

„Stelpurnar stóðust pressuna“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var mjög ánægður með bikarmeistaratitilinn
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var mjög ánægður með bikarmeistaratitilinn Vísir/Hulda Margrét

Valur vann þriggja marka sigur gegn Stjörnunni í úrslitum Powerade-bikarsins árið 2024. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, var afar ánægður með bikarmeistaratitilinn.

„Við spiluðum þokkalegan leik. Þetta var ekki okkar besti leikur þar sem við fórum illa með færin í fyrri hálfleik en löguðum það í seinni hálfleik og það var seigla í þessu,“ sagði Ágúst Jóhannsson í viðtali eftir leik.

Valur er í efsta sæti Olís-deildarinnar og var talið töluvert sigurstranglegra fyrir leik. Aðspurður hvort það hafi truflað liðið þar sem jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik.

„Veistu það, þetta hefur verið svona í sjö ár frá því ég tók við Val. Við erum með vel mannað lið og höfum aðeins tapað einum leik í vetur og þessi umræða var ekki óeðlileg. Stelpurnar stóðust pressuna og þær voru yfirvegaðar og flottar í dag.“

Klippa: Ágúst ánægður með bikarsigurinn

Ágúst var ánægður með síðari hálfleik Vals þar sem liðið spilaði töluvert betur og var mest sex mörkum yfir.

„Við vorum einu marki yfir í hálfleik og vildum vera með betra forskot. Ég hefði alveg viljað klára þetta fyrr en það var kraftur í Stjörnunni og ég vil hrósa þeim fyrir flottan leik. Við kláruðum þetta og ég held að betra liðið hafi unnið.“

Ágúst sagði að bikarmeistaratitillinn hafi mikla þýðingu fyrir Val sem ætlar að vinna alla titila sem í boði eru.

„Hann hefur mikla þýðingu. Við erum Valur og við viljum vinna alla titla og erum að berjast á öllum vígstöðvum. Við erum deildarmeistarar og erum orðnar bikarmeistarar og ætlum að njóta í kvöld,“ sagði Ágúst Jóhannsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×