Handbolti

Árangur vetrarins skiptir litlu í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Perla Ruth sneri aftur til uppeldisfélags síns Selfoss fyrir yfirstandandi tímabil og á hún stóran þátt í því að liðið hefur nú tryggt sér veru í deild þeirra bestu á nýjan leik.
Perla Ruth sneri aftur til uppeldisfélags síns Selfoss fyrir yfirstandandi tímabil og á hún stóran þátt í því að liðið hefur nú tryggt sér veru í deild þeirra bestu á nýjan leik. Mynd: UMF Selfoss

Landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir er klár í slaginn með Selfossi fyrir undanúrslitaleik liðsins við Stjörnuna í Powerade-bikarnum í handbolta í kvöld. Selfoss er eina B-deildarliðið sem komst á þetta stig keppninnar.

Selfoss hefur unnið alla 16 leiki sína í Grill 66-deildinni og hefur þegar tryggt sig upp í Olís-deildina á næstu leiktíð. Perla segir liðið sífellt vera að bæta sig.

„Við erum bara búnar að bæta okkur jafnt og þétt í allan vetur og það er engin ástæða til annars en að við mætum fullar sjálfstrausts í þennan leik,“ segir Perla Ruth í samtali við Vísi.

„Bikarinn er auðvitað önnur keppni og sama hvaða deild lið eru í eða hvernig hefur gengið í deildinni, þá geta öll lið átt nýtt lið í bikarnum. Það þurfa því allir að mæta 100 prósent til að ná úrslitum í kvöld.“

Fjölmenna í höllina

Stjarnan er í efstu deild en hefur gengið brösuglega. Liðin hafa ekki mæst áður í vetur og renna Selfyssingar að einhverju leyti blint í sjóinn.

„Við vitum ekkert hvernig er að mæta þeim. En við vitum að þær voru í hörkuleik við Val í síðustu umferð og eru með fullt af reynslumiklum leikmönnum. þannig að við þurfum að mæta klárar í hvað sem er og erum búnar að undirbúa okkur vel fyrir það,“

Búast má þá við fjölmenni af Selfossi í Laugardalshöllina í kvöld.

„Maður sér eiginlega ekki annað en auglýsingar fyrir þennan leik á samfélagsmiðlum. Við vitum að það er fullt af fólki að fara að mæta. Þetta verður virkilega fín stemning og ég hvet alla til að mæta. Þetta verður gaman,“ segir Perla Ruth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×