Viðskipti innlent

Gjald­þrot bæjar­stjórans fyrr­verandi nam 141 milljón króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jónmundur, þá bæjarstjóri Seltjarnarness, tekur í höndina á Sigríði Önnu Þórðardóttur þáverandi umhverfisráðherra við staðsetningu nýs aðalskipulags Seltjarnarness í maí 2006.
Jónmundur, þá bæjarstjóri Seltjarnarness, tekur í höndina á Sigríði Önnu Þórðardóttur þáverandi umhverfisráðherra við staðsetningu nýs aðalskipulags Seltjarnarness í maí 2006. Stjórnarráðið

Gjaldþrot Jónmundar Guðmarssonar, fyrrverandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, nam 141 milljón króna. Engar eignir fundust í búi hans.

Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar segir að fjórum kröfum hafi verið lýst í þrotabú Jónmundar en engar eignir hafi fundist í búinu.

Jónmundur var í desember fyrir tveimur árum dæmdur í sjö mánaða fangelsi og greiðslu 66,5 milljóna króna sektar vegna meiriháttar brota á skatta- og bókhaldslögum.

Brotin sem Jónmundur var dæmdur fyrir sneru að samlagsfélaginu Polygon sem sömuleiðis hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Jónmundur var ábyrgðaraðili og 99 prósent eigandi félagsins.

Hann fékk dóm fyrir að hafa staðið efnislega skil á röngum skattframtölum félagsins gjaldárin 2015 til og með 2017 með því að færa til gjalda tilhæfulausan kostnað. Var hann dæmdur fyrir að hafa oftalið rekstrargjöld Polygon um 61,5 milljónir króna.

Jónmundur var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi á árunum 2002 til 2009 og framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins árin 2009 til 2014. Hann var ráðinn í starf framkvæmdastjóra hjá GAMMA árið 2016 og varð forstöðumaður sölu og viðskiptatengsla hjá eignastýringu Kviku þegar Kvika tók yfir GAMMA árið 2019.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×