Fótbolti

Sakar lukkudýr um kyn­ferðis­lega á­reitni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Saci, lukkudýr Internacional, hefur verið sakað um óviðeigandi hegðun í garð sjónvarpskonu.
Saci, lukkudýr Internacional, hefur verið sakað um óviðeigandi hegðun í garð sjónvarpskonu. getty/Silvio Avila

Brasilísk sjónvarpskona hefur sakað mann sem leikur lukkudýr Internacional um kynferðislega áreitni. Hún kallar manninn hálfvita og glæpamann.

Eftir að Internacional skoraði sigurmark í leik gegn Gremino í brasilísku úrvalsdeildinni í fótbolta faðmaði lukkudýr liðsins, Saci, sjónvarpskonuna Gisele Kumpel, algjörlega óumbeðinn.

„Hann kom upp að mér, faðmaði mig og hélt því áfram. Jafnvel þótt hann væri með grímuna ýtti hann við höfðinu á mér og þóttist kyssa mig. Ég heyrði kosshljóðið og fann fyrir svita hans. Ég var eina konan á þessum hluta vallarins. Það voru aðrir fréttamenn þarna en hann gerði þetta bara við mig,“ sagði Kumpel.

Hún lét manninn sem leikur lukkudýrið svo heyra það á samfélagsmiðlum. „Enn einn dagurinn þar sem konur líða fyrir það að sinna sinni vinnu í fótbolta vegna hálfvita sem eru glæpamenn.“

Internacional setti manninn til hliðar og þarf því að finna nýjan einstakling til að leika Saci. Félagið hefur afhent lögreglu myndbönd af atburðum á hliðarlínunni í leiknum gegn Gremio sem Internacional vann, 3-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×