Íslenski boltinn

Samdi fleiri lög með Haaland: „Þetta er banger“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Erik Tobias Sandberg, leikmaður ÍA.
Erik Tobias Sandberg, leikmaður ÍA. Vísir/Bjarni

Norðmaðurinn Erik Tobias Sandberg er nýjasti leikmaður ÍA á Akranesi sem leikur í deild þeirra bestu í sumar. Sandberg kom fyrir tilstuðlan Arnórs Smárasonar en hann á athyglisverða sögu að baki.

Sandberg var talinn á meðal efnilegri leikmanna Noregs á sínum tíma og lék yfir 50 leiki fyrir yngri landsliðs Noregs. Hann var meðal annars orðaður við Manchester United og Arsenal sem ungur maður en meiðsli gerðu kappanum erfitt fyrir.

Hann var frá í hátt í þrjú ár vegna ítrekaðra hnémeiðsla þegar hann var á mála hjá Lilleström og átti til að deila sjúkrabekk með þáverandi leikmanni liðsins, Arnóri Smárasyni. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, sagði við íþróttadeild að Arnór hefði hvatt til kaupa á Sandberg allt frá því að hann sneri heim á Skagann fyrir síðustu leiktíð.

Fjallmyndarlegur Arnór vóg þungt

Sandberg ber Arnóri vel söguna.

„Hann er góður vinur minn. Hann er mjög góður fagmaður. Hann er leiðtogi. Það sem hann gerði með Akranesi í fyrra til að koma þeim upp um deild. Það er að miklu leyti honum að þakka.“

Fjallmyndarlegur Arnór hefur sóst eftir því að fá Sandberg á Skagann um hríð.mynd/hif.se

„Hann hvetur alla áfram, hann er skemmtilegur og auðvitað fjallmyndarlegur. Hann er góður vinur minn og stór hluti af ástæðunni fyrir því að ég vildi koma hingað.“

Frægasta rappgrúppa Noregs

Sandberg lék upp yngri landslið Noregs með þeim Erik Botheim, varnarmanni Malmö, og stórstjörnunni Erling Haaland en þeir voru mestu mátar. Í einhverju landsliðsverkefnanna leiddist þeim félögum og ákváðu að semja rapplag undir listaheitinu Flow Kingz. Það rataði á YouTube og hafa yfir 12 milljónir manna séð myndbandið.

„Þetta er ein frægasta rappgrúppa Noregs,“ segir Sandberg og hlær. 

„Nei, þetta er brandari ef satt skal segja. Við félagarnir gerðum rappmyndband þegar við vorum í ungmennalandsliðinu.“

Erling Haaland, leikmaður Manchester City, Erik Botheim, leikmaður Malmö, og Erik Sandberg, leikmaður ÍA, eru góðir félagar.Instagram/@eriktsandberg

„Þarna var vinur minn, Erik Botheim sem spilar fyrir Malmö núna, og Erling Håland sem ég held að allir þekki. Hann er mjög góður leikmaður. Við vorum í U-16 og U-15 landsliðinu. Við höfðum oft mikinn lausan tíma á milli leikja og æfinga.Við sömdum nokkrar línur og gerðum svo tónlistarmyndband.“

„Þetta var bara brandari en við settum það á YouTube. Fólk var hrifið af þessu þótt þetta væri bara grín. Ég held að þetta sé grípandi og nú er það orðið frægt og margir horfa á það. Við erum stoltir af þessu.“

Nóg til af óútgefnu efni tríósins

Aðspurður hvort þetta sé ekki smellur (e. banger) svarar Sandberg því játandi.

„Jú, þetta er smellur. Við sýnum tilþrif. Það er bara góður andi í þessu, engin alvara,“ sem segist enn geta sýnt sömu danstilþrif og í myndbandinu sem fylgdi laginu.

„Já, ég get það og meira til.“

En er ekkert nýtt efni á leiðinni frá Flow Kingz?

„Við hittumst ekki svo oft lengur því við erum í mismunandi stöðum en við sömdum tónlist á sínum tíma sem við höfum ekki gefið út.“

„Við gætum gefið hana út einhvern daginn, það er aldrei að vita, sennilega ekki, en við eigum nokkur lög sem enginn hefur heyrt,“ segir Sandberg.

Viðtalið, lagið, og danstilþrif þremenninganna má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×