Erlent

Með hústökumann í í­búðinni á Kanarí

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Frá Kanaríeyjunum.
Frá Kanaríeyjunum. Vísir/Getty

Sænsk fjölskylda er ráðþrota eftir að maður braust inn í íbúð í þeirra eigu á Kanaríeyjunum síðastliðinn nóvember og gerðist þar hústökumaður. Fjölskyldan bíður úrskurðar spænskra dómstóla en maðurinn hefur meðal annars leigt íbúð þeirra út til annarra á Airbnb í millitíðinni.

„Það er ákaflega furðulegt að þurfa að dvelja á hóteli á meðan maðurinn býr í íbúðinni sem pabbi hefur átt í níu ár,“ hefur sænska ríkisútvarpið eftir Agnetu Torberntsson. 89 ára gamall faðir hennar á íbúðina.

Fram kemur í umfjöllun miðilsins að maðurinn hafi brotist inn á meðan fjölskyldan var í Svíþjóð. Manninn þekktu þau ekki en hann skipti um lása og kom upp eftirlitsmyndavélum við íbúðina.

Þá kemur fram að dómstóll á Kanaríeyjum hafi átt að taka málið fyrir í lok janúar. Því hafi hins vegar verið frestað um óákveðinn tíma en samkvæmt spænskum lögum er ekki hægt að aðhafast í málinu fyrr en niðurstaða dómstóls liggur fyrir. 

Þá má fjölskyldan ekki hætta að greiða vatns - og rafmagnsreikninga af íbúðinni í millitíðinni. Fjölskyldan hefur hingað til eytt hundrað þúsund sænskum krónum í lögfræðinga vegna málsins eða því sem nemur 1,3 milljónum íslenskra króna.

Fram kemur í umfjölluninni að fjölskyldan geti lítið annað gert en að vona að málið verði tekið fyrir hið fyrsta af dómstólum. Agneta og faðir hennar flugu út til að vera viðstödd málaferlin í lok janúar og komust þá að því að maðurinn hefði einnig leigt íbúðina út á Airbnb.

„Ég veit ekki hvað skal segja,“ hefur SVT eftir Agnetu. Hún segir að fjölskyldunni hafi verið ráðlagt að hafa ekki samband við manninn, þar sem hann hafi áður sýnt af sér ógnandi hegðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×