Golf

Hent úr keppni eftir að hafa skráð vit­laust skor

Smári Jökull Jónsson skrifar
Spieth undirbýr teighödd á öðrum hring Genesis-mótsins í Kaliforníu í nótt.
Spieth undirbýr teighödd á öðrum hring Genesis-mótsins í Kaliforníu í nótt. Vísir/Getty

Tiger Woods hætti keppni á Genesis-mótinu á PGA-mótaröðinni í nótt vegna veikinda. Hann er þó ekki eina stórstjarnan sem nær ekki að klára mótið í Kaliforníu þessa helgina.

Genesis-mótið á PGA-mótaröðinni er leikið á Riviera-sveitaklúbbnum um helgina og er Patrick Cantlay í forystu eftir fyrstu tvo hringina. Tiger Woods hætti keppni á miðjum öðrum hringnum vegna veikinda og þurfti að fá vökva í æð þegar hann kom aftur í félagshúsið.

Woods er þó ekki sá eini sem lenti í vandræðum í Kaliforníu í gær. Jordan Spieth var í ágætri stöðu eftir fyrstu tvo hringina og skilaði inn skorkorti sínu að hringnum loknum.

Í ljós kom hins vegar að Spieth hafði skráð vitlaust skor á kortið en þetta er í fyrsta sinn í 263 keppnum á PGA-mótaröðinni sem hann gerir þessi mistök. Samkvæmt reglum eru þeir kylfingar sem skrá vitlaust skor vísað úr keppni og fær Spieth því ekki að gera atlögu að sigri á mótinu um helgina.

Spieth gekkst við mistökunum í innleggi á X í nótt og sagðist taka fulla ábyrgð.

„Í dag skrifaði ég skorkort sem var vitlaust útfyllt og fór svo af mótssvæðinu, haldandi að ég hefði farið í gegnum hlutina vel og séð til þess að allt væri rétt gert. Reglur eru reglur og ég tek fulla ábyrgð,“ skrifaði Spieth og sagði sárt að geta ekki gert atlögu að sigri á mótinu um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×