Fótbolti

Kundananji orðin dýrasta fótboltakona sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Racheal Kundananji er orðin dýrasta fótboltakona sögunnar.
Racheal Kundananji er orðin dýrasta fótboltakona sögunnar. Diego Souto/Getty Images

Racheal Kundananji er orðin dýrasta fótboltakona sögunnar eftir að hún gekk til liðs við bandaríska liðið Bay FC frá Madrid CFF á Spáni.

Bay FC, sem er nýtt lið í bandarísku NWSL deildinni og mun leika sitt fyrsta tímabil í sumar, kaupir Kundananji frá Madrid CFF fyrir 685 þúsund pund, sem samsvarar rétt tæplega 120 milljónum króna.

Kundananji hefur skorað 33 mörk í 43 leikjum fyrir Madrídarliðið, en hún skrifar undir fjögurra ára samning við Bay FC. Hún er fyrsti afríski leikmaðurinn, hvort sem um ræðir karla eða kvenna, til að verða dýrasti leikmaður heims.

Framherjinn er ekki bara dýrasta fótboltakona sögunnar, heldur sú langdýrasta. Enska landsliðskonan Keira Walsh var áður dýrasta fótboltakona heims eftir að hún var keypt til Barcelona frá Manchester City fyrir 400 þýsund pund. Walsh gæti þó fljótlega verið orðin þriðja dýrasta fótboltakona heims eftir að Chelsea keypti Mayra Ramirez frá Levante fyrir 384 þúsund pund, en sú upphæð gæti hækkað upp í 426 þúsund pund með árangurstengdum bónusgreiðslum.

Hin sambíska Kundananji hefur, eins og áður segir, átt góðu gengi að fagna með Madrid CFF undanfarið, en þessi 23 ára framherji hefur einnig skorað tíu mörk í aðeins 18 landsleikjum á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×