Handbolti

Stjarnan lagði KA og fer í Höllina

Smári Jökull Jónsson skrifar
Tandri Már Konráðsson átti frábæran leik fyrir Stjörnuna í dag.
Tandri Már Konráðsson átti frábæran leik fyrir Stjörnuna í dag. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan er komin í undanúrslit Powerade-bikars karla í handbolta eftir þriggja marka sigur á KA á heimavelli í dag.

Þremur stigum munaði á liðunum í Olís-deildinni fyrir leikinn í dag. Stjarnan var með 13 stig í 7. sæti deildarinnar og KA með 10 stig í 9. sæti. 

Nokkuð jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik en Stjarnan þó skrefinu á undan. Garðbæingar leiddu 12-10 að loknum fyrri hálfleik og komust fjórum mörkum yfir í stöðunni 17-13 snemma í þeim síðari.

KA-menn náðu þó vopnum sínum á ný og jöfnuðu í 18-18 og þegar innan við tíu mínútur lifðu leiks var staðan 20-20. En Garðbæingar voru sterkari á endasprettinum. Þeir náðu 3-0 kafla, komust í 23-20 og það bil náðu Akureyringar ekki að brúa.

Stjarnan vann að lokum 23-20 sigur og fer því í undanúrslitin sem spiluð verða í Laugardalshöll. ÍBV er einnig komið í undanúrslit en á morgun ræðst hvaða lið ná síðustu tveimur sætunum. Þá mætast Haukar og FH í Hafnarfjarðarslag og Valur tekur á móti Selfyssingum.

Tandri Már Konráðsson fór á kostum hjá Stjörnunni í dag og skoraði ellefu mörk úr fjórtán skotum. Adam Thorstensen var með tæplega 40% markvörslu í markinu líkt og Bruno Bernat í marki KA. Jens Bragi Bergþórsson og Einar Rafn Eiðsson voru markahæstir hjá KA með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×