Erlent

Írskur þjóð­ernis­sinni for­sætis­ráð­herra Norður-Ír­lands í fyrsta sinn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
O'Neill ávarpar þingið eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra Norður-Írlands í dag.
O'Neill ávarpar þingið eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra Norður-Írlands í dag. AP

Michelle O'Neill, þingkona Sinn Féin, skráði sig í sögubækurnar þegar hún tók við embætti sem forsætisráðherra Norður-Írlands þegar þing kom saman í dag eftir tveggja ára sniðgöngu sameiningarsinna.

Michelle O'Neill sem er varaforseti Sinn Féin, flokks írskra lýðveldissinna og sósíaldemókrata, var tilnefnd í dag sem forsætisráðherra í ríkisstjórn Norður-Írlands. Hún er þrettándi forsætisráðherra landsins en sá fyrsti úr röðum Sinn Féin.

„Dagar annars flokks ríkisborgararéttar eru löngu liðnir. Dagurinn í dag staðfestir að við ætlum aldrei að snúa aftur til baka,“ sagði O'Neill þegar hún tók við embættinu. 

„Sem írskur lýðveldissinni heiti ég samstarfi og raunverulegri heiðarlegri viðleitni með þessum kollegum sem eru breskir bandalagssinnar og þykir vænt um konungsríki Bretlands. Þetta er þing fyrir alla, kaþólikka, mótmælendatrúar og utankirkjumenn,“ sagði hún einnig.

Þingið ekki starfað í tvö ár

Ríkisstjórn Norður-Íra byggir á Friðarsamkomulagi föstudagsins langa (e. Good Friday Peace Accors) sem var handsalað árið 1998 eftir þrjátíu ára átök sem hafa verið kölluð Vandræðin (e. The Troubles). 

Samkomulagið deilir valdi milli tveggja stærstu stjórnmálahópa landsins, breskra bandalagssinna sem vilja vera áfram í Sameinuðu konungsríki Stóra-Bretlands og írskra þjóðernissinna sem vilja sameinast Írlandi.

Hvorugur hópurinn getur stjórnað án samþykkis hins og undanfarin tvö ár hefur ríkisstjórnin verið óstarfhæf eftir að DUP, bandalagssinnaðir demókratar, sniðgengu þingið til að mótmæla verslunarmálum tengdum Brexit.

O'Neill mun deila völdum í tveggja manna stjórn með Emmu Little-Pengally úr flokki DUP sem tekur embætti sem staðgengill forsætisráðherra. Þær eru jafnvaldamiklar en O'Neill ber virtari titil eftir að Sinn Féin fékk flest þingsæti í kosningunum 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×