Innlent

Pall­borðið á Vísi í dag: Er ógn eld­gosa að færast nær höfuð­borgar­svæðinu?

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, og jarðvísindamennirnir Kristín Jónsdóttir og Magnús Tumi Guðmundsson verða í Pallborðinu á Vísi í dag.
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, og jarðvísindamennirnir Kristín Jónsdóttir og Magnús Tumi Guðmundsson verða í Pallborðinu á Vísi í dag. Vísir/Vilhelm

Ógn sem íbúum höfuðborgarsvæðisins kann að stafa af eldsumbrotum verður umræðuefni Pallborðsins á Vísi í dag. Kristján Már Unnarsson fær til sín bæjarstjórann í Hafnarfirði, Rósu Guðbjartsdóttur, og tvo jarðvísindamenn, Kristínu Jónsdóttur, jarðskjálftafræðing á Veðurstofu Íslands, og Magnús Tuma Guðmundsson, jarðeðlisfræðing við Háskóla Íslands.

Eftir fréttir síðustu daga af jarðhræringum milli Heiðmerkur og Bláfjalla hafa eflaust margir á Reykjavíkursvæðinu spurt sig: Er hætta á að íbúar á þéttbýlasta svæði landsins geti lent í svipuðum hremmingum og Grindvíkingar? Þarf jafnvel að fara að huga því að því að ryðja upp varnargörðum fyrir byggðina?

Mismunandi túlkun vísindamanna á umbrotunum í Brennisteinsfjallakerfinu hefur einnig vakið athygli. Er eldgosakerfi að vakna rétt utan höfuðborgarsvæðisins? Eða eru þetta hefðbundnir jarðskjálftar sem fylgja Reykjanesskaganum? Hver er hættan á stórum jarðskjálfta á þessu svæði?

Þurfa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að endurskoða byggingaráform sín? Hvaða áhrif hefur þetta á húsbyggingaráform í Hafnarfirði? Er skynsamlegt að gera flugvöll í Hvassahrauni?

Við fáum jafnframt nýjasta stöðumat jarðvísindamanna á því sem er að gerast í landrisinu við Svartsengi og við hverju megi búast á gossprungunni norðan Grindavíkur á næstu dögum og vikum.

Hægt er að horfa á þátt Pallborðsins í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×