Fótbolti

Yfir­maður fótboltamála hjá UEFA segir af sér og gagn­rýnir for­setann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zvonimir Boban hefur miklar áhyggjur af einræðistilburðum Aleksanders Ceferin, forseta UEFA.
Zvonimir Boban hefur miklar áhyggjur af einræðistilburðum Aleksanders Ceferin, forseta UEFA. Getty/Lukas Schulze

Zvonimir Boban, fyrrum stórstjarna AC Milan, hefur sagt af sér sem yfirmaður fótboltamála hjá UEFA og hann vandar forsetanum Aleksander Ceferin ekki kveðjurnar.

UEFA hefur staðfest afsögn Boban en hann skrifaði bréf þar sem hann fer yfir það af hverju hann tók þessa dramatísku ákvörðun.

Í bréfinu setur Boban meðal annars fram harða gagnrýni á Ceferin, forseta UEFA, og ekki síst á það frumvarp hans um að gefa Ceferin sjálfum tækifæri til að ríkja lengur en í tólf ár. Tólf ár hafa hingað til verið hámarkstími forseta evrópska fótboltasambandsins.

„Ég er mjög leiður og hryggur yfir því að þurfa að yfirgefa UEFA en ég átti enga aðra mögulega,“ skrifaði Zvonimir Boban í bréfinu samkvæmt erlendum fjölmiðlum.

Boban er 55 ára og varð í apríl árið 2021 sá fyrsti í sögunni til að verða yfirmaður fótboltamála hjá UEFA.

Boban fer yfir það í bréfinu að það séu bæði laga og siðferðileg vandamál sem koma fram í frumvarpi forsetans. Hann hefur miklar áhyggjur af einræðistilburðum Ceferin.

Boban telur líka að Ceferin muni þvinga frumvarpinu í gegn til að ná sínum persónulegu markmiðum.

Boban var stórt nafn í fótboltanum á sínum tíma og spilaði bæði fyrir Júgóslavíu og Krótaíu á stórmóti. Hann var leikmaður AC Milan frá 1991 til 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×