Sport

Dæmdur úr leik í maraþonhlaupi fyrir að reykja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bang-Xian Chen sést hér hlaupa með sígarettuna upp í sér.
Bang-Xian Chen sést hér hlaupa með sígarettuna upp í sér. Weibo

Sagan af hinum 52 ára gamla Bang-Xian Chen eða Chen frænda eins og hann er kallaður í Kína gæti eiginlega ekki verið skrýtnari.

Chen kláraði á dögunum maraþonhlaup í Kína á þremur klukkutímum og 33 mínútum. Ekki slæmur tími fyrir mann á sextugsaldri.

Þá er nú ekki allt upp talið. Chen keðjureykti nefnilega allt hlaupið. Hann sást hlaupandi með sígarettuna upp í sér og vakti fyrir það mikla athygli í kínverskum fjölmiðlum sem og á samfélagsmiðlum.

Það fáránlega við það að það er ekki eins og hann sé háður reykingum. Hann reykir nefnilega ekki dagsdaglega.

Til að bæta gráu ofan á svart þá var Chen dæmdur úr leik þegar hann kom í markið. Ástæðan var að kínverska frjálsíþróttasambandið var búið að setja nýja reglu um að banna reykingar í hlaupum.

Það ætti nú ekki að þurfa setja slíka reglu en frægð Chen og hættan á því að fleiri taki upp þennan slæma sið hefur kallað fram reglubreytingu.

Hver veit nema að þegar Chen sleppir þessum slæma ávana þá geti lungun hans skilað honum enn betra tækifæri til að hlaupa á betri tíma. Hann hlýtur að minnsta kosti að sleppa reykingunum í næsta hlaupi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×