Skoðun

Hve­nær drepur maður mann og hve­nær drepur maður ekki mann?

Gunnar Ármannsson skrifar

Þessi fleygu orð Jóns Hreggviðssonar úr Íslandsklukku Halldórs Kiljan Laxness flugu mér í hug eftir að hafa hlustað á þáttinn Þetta helst á Ruv.is frá 3. janúar sl. Útgangspunktur umfjöllunarinnar er sagður sá að fjalla um stöðu Tómasar Guðbjartssonar við LSH vegna „plastbarkamálsins“.

Ástæða þess að ég hlustaði á þáttinn voru skrif Magnúsar Karls Magnússonar, læknis og kennara við læknadeild HÍ, sem hann birti á fésbókarsíðu sinni í tilefni umfjöllunar þáttarins um stöðu Tómasar. Honum fannst umfjöllunin ekki fagleg og að skortur væri á vönduðum fréttaflutningi um málið. Þar sem ég átti fyrir höndum kennslu 6. árs læknanema við HÍ um lækna og lögfræði ákvað ég að lesa sjálfur ítarlega og að flestra mati vandaða skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar undir forsæti Páls Hreinssonar um þann hluta málsins sem snýr að aðkomu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana. Sú skýrsla kom út 6. nóvember 2017.

Kveikjan að umfjöllun í þættinum Þetta helst á Rúv er væntanlega tilkynning frá skrifstofu forstjóra LSH á heimasíðu þann 15.12. sl. og í framhaldinu umfjöllun í fjölmiðlum um plastbarkamálið. Ástæða tilkynningarinnar frá skrifstofu forstjóra virðist vera sú að lögmaður ekkju Andemariam Beyene, Sigurður Guðni Guðjónsson, sendi forstjóranum erindi þar sem hann óskaði þess að spítalinn myndi kynna erindið fyrir ríkislögmanni með það í huga að sátt yrði gerð um bætur til handa ekkjunni með hans aðkomu.

Spítalinn vísar einnig til þess að í kjölfar dóms yfir Paolo Macchiarini sl. sumar hafi spítalinn ákveðið að taka málið til umfjöllunar að nýju með hliðsjón af þætti spítalans í meðferð fyrsta sjúklingsins sem undirgekkst aðgerð hjá Macchiarini.

Það þarf ekki að koma á óvart að íslenskir fjölmiðlar sýni málinu áhuga og rifji upp helstu atvik málsins enda hefur það vakið heimsathygli allt frá árinu 2011.

Nálgun þáttastjórnanda í þættinum Þetta helst kemur hins vegar á óvart og hlýtur að kalla fram spurningar um tilgang þáttastjórnandans með nálgun sinni.

Síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hefur fátt gerst annað í málinu en að grein sú sem birt var í Lancet um aðgerðina hefur verið dregin til baka og Macchiarini hefur nú hlotið tveggja og hálfs árs dóm í fangelsi fyrir sinn þátt í málinu. Var hann fundinn sekur um grófa líkamsárás. Var tekið fram í dómnum að ekki væri efast um að læknirinn hafi vonast eftir því að aðferð hans myndi virka en engu að síður hefði hann hagað sér með saknæmum ásetningi. Rannsókn hefði sýnt að læknirinn hafi gert sér grein fyrir áhættunni og að aðferð sú sem hann beitti myndi valda sjúklingum líkamlegum meiðslum og þjáningum. Hann hafi hins vegar kært sig kollóttan um áhættuna.

Í ljósi þess að lítið nýtt hefur komið fram, og alls ekkert sem varðar Tómas, af hverju er þá þessi áhersla þáttastjórnanda á stöðu Tómasar við LSH?

Ef það er svo að einhverjum líki ekki við Tómas eða hvernig hann hefur kosið að hafa samskipti við fjölmiðla á undanförnum árum er þá hægt að panta umfjöllun á Rúv, nafnlaust, um þau samskipti og gera þau tortryggileg? Hvað hafa ýmis samskipti Tómasar við fjölmiðla vegna annarra mála með plastbarkamálið að gera?

Rannsóknarnefndin tók m.a. samskipti Tómasar við fjölmiðla vegna plastbarkamálsins til sérstakrar skoðunar og skilað niðurstöðu sinni um þau árið 2017. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, hvað varðar þennan þátt málsins, að Tómas hefði haft uppi villandi ummæli opinberlega og gert með því hlut sinn í aðgerðinni meiri en efni hafi staðið til. Það hafi síðan valdið því að í opinberri umræðu hafi orðið óljóst hver ábyrgð Tómasar hefði verið við framkvæmd aðgerðarinnar, þegar fréttir bárust af því að öll opinber leyfi hefði skort fyrir framkvæmd hennar. Hér er rétt að staldra sérstaklega við. Niðurstaða nefndarinnar um þennan þátt er alls ekki hafin yfir gagnrýni hvað varðar þá ályktun að Tómas hafi gert sinn hlut meiri en efni hafi staðið til. Nefndin byggir þessa niðurstöðu á því að Tómas hafi viðhaft orðalagið „við“ um þætti í meðferðinni sem hann hafi sjálfur ekki tekið þátt í eða eingöngu horft á. Hér er rétt að hafa í huga að þeir þættir sem þarna ræðir um eru ekki flóknar læknisfræðilegar aðgerðir heldur einföld læknisfræðileg framkvæmd eins og að taka stofnfrumur úr Andemariam eða bera þær á plastbarkann. Þá er sagt að hann hafi ekki tekið þátt í að taka slímhúð úr koki og festa inn á plastígræðið. Hins vegar átti hann, ásamt öðrum aðalskurðlækni, þátt í að gera aðgerð á Andemariam og ná út æxlinu sem var mjög flókið verkefni. Í því verkefni voru margir viðstaddir sem þó tóku ekki þátt í þeim hluta aðgerðarinnar. Með því að nota orðið „við“ um allan hópinn sem stóð að aðgerðinni má þá alveg eins segja að Tómas hafi verið að gera hlut þeirra meiri en efni hafi staðið til. Um er að ræða teymisvinnu margra þar sem hlutverk hvers og eins er vel skilgreint fyrirfram og því eðlilegt að meðlimir hópsins tali um sig sem slíkan, þ.e. sem hluta af hópi. Það hefði í raun verið beinlínis skrítið ef svo hefði ekki verið gert í almennri frásögn heldur hefði hver og einn af hópmeðlimum farið að skilgreina nákvæmlega í hverju hann tók þátt og hverju ekki.

Þá er rétt að hafa í huga að það stóð ekki til að Tómas tæki þátt í aðgerðinni fyrr en með mjög stuttum fyrirvara. Og til að byrja með neitaði Tómas því að hann gæti tekið þátt þar sem hann væri upptekinn við annað. Það var hins vegar lagt hart að honum að koma og taka þátt þar sem það var hann sem gerði aðgerðina á Andemariam árið 2009 og lokaði honum eftir þá aðgerð. Macchiarini og stjórnendur á Karolinska háskólasjúkrahúsinu óskuðu eftir aðkomu Tómasar. Hér er vert að hafa í huga að áður en fyrsti sjúklingurinn í þessa aðgerð kom til sögu, Eritríumaðurinn Andemariam frá Íslandi, hafði Karolinska Institutet (KI) með Karolinska háskólasjúkrahúsið sem samstarfsaðila, framtíðarsýn sem hafði það að markmiði í náinni framtíð, að geta gert þess konar aðgerðir sem voru gerðar. Þ.e. áður en Macchiarini kom til sögunnar. KI hafði hins vegar þær væntingar að Macchiarini myndi styrkja bæði klíníska og vísindalega endurnýjunarlæknisfræði (regenerativ medicin). Það var við framangreindar aðstæður sem fulltrúi Sjúkratrygginga á Íslandi lagði sérstaklega til að málið yrði tekið upp við stjórnendur Landspítala og var það gert og samþykkt. Landspítalinn greiddi Tómasi laun og ferðakostnað vegna aðgerðarinnar. Það hafði einnig þýðingu í þessu samhengi að fyrir lá að Tómas átti að sjá um eftirlit á Íslandi eftir aðgerðina.

Á þeim tíma sem aðgerðin var gerð voru engar grunsemdir um að Macchiarini væri svikahrappur. Það hafði því enginn úr teyminu sérstaka ástæðu til að reyna að aðgreina sig frá honum eða störfum hans. Því var ekki nein sérstök ástæða fyrir nokkurn úr teyminu að hafa fyrirvara á aðkomu sinni að verkefninu. Það að í ljósi sögunnar hafi það orðið tímabundið óljóst hver ábyrgð hvers og eins úr teyminu væri á einstökum verkefnum við aðgerðina skiptir í raun og veru engu sjálfstæðu máli hvað varðar hina endanlegu ábyrgð. Hún skýrðist við rannsókn málsins. Aðkoma allra sem að aðgerðinni komu var rannsökuð sérstaklega þegar í ljós var komið að svik voru í tafli. Í þeirri rannsókn kom fram að Tómas kom ekkert að þeim þætti meðferðarinnar sem flokkaðist undir tilraunstarfsemi í aðgerðinni. Og hér er einnig rétt að hafa í huga að í samningi Sjúkratrygginga við Karólinska var sérstaklega tekið fram að Sjúkratryggingarnar myndu eingöngu greiða fyrir þann hluta meðferðar sem teldist til gagnreyndrar læknismeðferðar- og ekkert fyrir þann hluta sem teldist til tilraunameðferðar. Að auki var tekið sérstaklega fram að ef Andemariam myndi þarfnast eftirmeðferðar á Karolinska þá myndi íslenska ríkið eingöngu greiða fyrir það ef um væri að ræða afleiðingar vegna hinnar gagnreyndu læknismeðferðar en ef kostnaður tengdist tilraunmeðferð þá myndi Karolinska greiða. Því var ekki um það að ræða að íslenskir skattgreiðendur væru að greiða fyrir tilraunameðferð þar sem hinn ábyrgi aðili var dæmdur fyrir líkamsárás – eins og haldið er fram í umfjöllun á Rúv í viðtali við Björn Zoega, stjórnarformann Landspítalans.

Meginniðurstaða nefndarinnar er sú að í ljósi allra málavaxta var tilvísun Tómasar á Andemariam til Karolinska eðlileg. Nefndin sá ástæðu til að taka fram sérstaklega (bls. 217) að þótt við hafi bæst síðar að meta einnig hvort ígræðsla væri fýsilegur kostur, hafi tilvísun Tómasar gert ráð fyrir því að Andemariam kæmi til Íslands þremur dögum eftir mat sænsku læknanna og að síðan yrði í framhaldinu tekin ákvörðun um hvaða úrræði hentaði Andemariam best og hann sendur síðar aftur til Svíþjóðar í þá aðgerð.

Í umfjöllun þáttarins segir viðmælandi þáttastjórnanda að nefndin geri margvíslegar athugasemdir við störf Tómasar. Og í inngangi þáttarins er vitnað til 9 ónafngreindra lækna um að Tómas þurfi að sæta ábyrgð fyrir þátttöku sína í málinu. Og að „sumir“ telji að hann verði að hætta störfum við spítalann svo afdrifarík hafi þátttaka hans verið.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður framangreindar ályktanir ekki. Það eru vissulega gerðar athugasemdir við ákveðna þætti en þeir lúta m.a. að vinnubrögðum innan spítalans og varða Tómas ekki sérstaklega. Má þar t.d. nefna færslur í sjúkraskrár þegar verið er að senda sjúklinga til aðgerða erlendis. Nefndin sá sérstaka ástæðu til að nefna að þessi ábending ætti erindi við flesta lækna sjúkrahússins og e.t.v. aðra starfsmenn, svo sem ritara. Þá gerði nefndin ákveðnar athugasemdir við þátttöku Andemariams í umræddu málþingi og jafnframt lagði nefndin til ákveðnar breytingar sem varða vísindasiðanefnd. En hvað varðar Tómas sérstaklega þá er meginniðurstaðan sú að Tómas hafi ekki brotið af sér heldur fyrst og fremst haft hagsmuni Andemariam í fyrirrúmi. Og það svo mjög að hann hafi gert mun meira heldur en til hafi verið hægt að ætlast. Nefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Tómas hafi látið Macchiarini gabba sig með því að breyta texta í bréfi til Macchiarini sem hann hélt að ætti að nota til þess að fá leyfi vísindasiðanefndar fyrir plastbarkaígræðslu ef til hennar myndi þurfa að grípa. Með því hafi hann „tæplega“ fylgt eftir fyrirmælum 11. gr. læknalaga. Hér er rétt að hafa í huga að í sænskri rannsókn var komist að þeirri niðurstöðu að samskipti sænsku lyfjastofnunarinnar og Karolinska/KI hafi verið verulega ábótavant og séu í reynd rót þeirra vandamála sem sköpuðust. M.a. var bent á að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins um að formleg samskipti þessara aðila hafi átt sér stað meðan á starfseminni stóð, hvað snertir t.d. formsatriði vegna leyfisveitinga eða skilgreiningar og afmörkunar til að hægt væri að þróa starfsemina innan gildandi lagaramma. Á þessu samskiptaleysi þar til bærra aðila í Svíþjóð gat Tómas enga ábyrgð borið.

Allt framangreint hefur legið fyrir síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar var birt 6. nóvember 2017. En þáttastjórnandi kaus að láta umfjöllun sína snúast um persónu læknisins Tómasar og meintrar óánægju nafnlausra kollega hans með framgöngu hans í fjölmiðlum. Skýrsla nefndarinnar fjallaði að óverulegu leyti um þennan þátt og er aukaatriði í plastbarkamálinu.

Sé það svo að ónafngreindum læknum finnist Tómas fara offari í samskiptum við fjölmiðla á að taka slíkt mál upp á öðrum vettvangi, t.d. annað hvort innan spítalans sjálfs eða Læknafélagsins. Það að tengja þessa óánægju við plastbarkamálið er hins vegar grafalvarlegt mál því með því er verið að láta líta svo út að Tómas hafi brotið af sér með ámælisverðum hætti og að því ýjað að hann verði að bera sérstaka ábyrgð þess vegna. Mögulega hætta störfum við spítalann svo afdrifarík hafi þátttaka hans verið. Þegar fyrir liggur í skýrslu rannsóknarnefndar með skýrum hætti að Tómas braut ekki af sér með ámælisverðum hætti í málinu.

Umfjöllun þáttastjórnanda hefur verið ósanngjörn, einhliða og beinlínis villandi.

Má benda á tvennt til viðbótar í því samhengi.

Annars vegar er á það bent að sá hluti málsins sé óuppgerður sem varðar bætur til ekkju Andemariam í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar. Það er út af fyrir sig rétt en það er ekki skýrt nánar í hverju ábendingar nefndarinnar felast. En ábending nefndarinnar er nefnilega mjög sértæk.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknir sem gerðar voru hér á landi á Andemariam eftir meðferðina hefðu fallið undir að vera leyfisskyldar vísindarannsóknir. Slíkt leyfi hafi hins vegar ekki legið fyrir. Nefndin hins vegar segir að þarna hafi ekki verið um að ræða ásetning og lagði það sérstaklega á sig að grafast fyrir um í hverju misskilningur gæti hafa falist. Jafnframt taldi nefndin að meðferð persónuupplýsinga um Andemariam í þágu vísindagreinarinnar sem birtist í Lancet hefði verið ábótavant.

Af framangreindu tilefni telur nefndin ástæðu til að Landspítali taki til athugunar hvort rétt geti verið að veita ekkjunni fjárhagsaðstoð í því skyni að ráða lögmann til að fara yfir það hvort mögulega sé um bótaskyld atvik að ræða, þ.e. vegna skorts á leyfi til vísindarannsóknar og vegna meðferðar á persónuupplýsingum. Nefndin slær því alls ekki föstu að bótaskylda sé fyrir hendi en að aðstoða eigi ekkjuna við að fá úr því skorið. Það vekur aftur á móti athygli að nefndin tók það sérstaklega fram að það vekti undrun að Karólinska háskólasjúkrahúsið hefði ekki haft samband við ekkjuna til þess að fara yfir mögulega bótaskyldu fyrir þau mistök sem gerð voru í aðgerðinni sjálfri.

Hins vegar þá endaði þáttastjórnandinn á því að setja málið þannig upp að spyrja hvort ekki þyrfti að rannsaka aðkomu annarra sem tóku þátt í aðgerðinni þegar fyrir lægi að búið er að dæma höfuðpaurinn fyrir sinn þátt. Viðmælandinn bætti um betur með því að taka fram að málið hafi aldrei komið til kasta lögreglu hér heima. Svo mörg voru þau orð og þættinum lokið.

Hvaða spurningar eru þá hlustendur skyldir eftir með? Braut Tómas af sér með refsiverðum hætti? Á eftir að dæmi Tómas til refsingar? Mun íslenska lögreglan rannsaka aðkomu Íslendinganna að málinu? Já það er nefnilega það, er nema von að spurt sé hvenær drepur maður mann og hvenær ekki?

Þessi framsetning er með eindæmum lúaleg. Með þessari fullyrðingu tek ég undir með Óðni Jónssyni, fyrrverandi fréttastjóra Rúv, þar sem hann segir í athugasemd við fésbókarfærslu Magnúsar Karls: „Það er auðvitað ekki boðlegt að vitna í ónafngreinda einstaklinga til að grafa undan mannorði nafngreindrar persónu. Það er ekki fréttamennska heldur lúaleg aðför.“

Það er ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem gefur í skyn að Tómas hafi brotið af sér með refsiverðum hætti. Íslensk löggæsluyfirvöld eru fullfær um að meta það sjálfstætt hvort þau telji ástæðu til að taka upp rannsókn á meintu sakamáli eða ekki. Það hefur ekki verið gert og verður ekki gert.

Í Svíþjóð voru allir sem komu að málum Andemariam til rannsóknar. Að endingu var einn ákærður og hann síðar sakfelldur. Rannsókn á öðrum var felld niður þar sem ekki var talið líklegt að frekari rannsókn myndi leiða til sakfellingar. Refsiþætti málsins í Svíþjóð er þar með lokið.

Að lokum.

Heilbrigðisstarfsfólk sem lendir í kastljósi fjölmiðla er almennt í veikri stöðu ef bornar eru sakir á það. Það er ekki auðvelt að sitja undir rangindum og einhliða málflutningi. Það er ekki skrítið að þeir sem fyrir slíku verða geti þurft að draga sig í hlé, a.m.k. tímabundið. En vonandi eingöngu tímabundið.

Á Íslandi er skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Á sumum sviðum mjög mikill skortur. Sérstaklega þegar um er að ræða mjög sérhæft heilbrigðisstarfsfólk.

Það varðar öryggi sjúklinga ef mjög sérhæfðu starfsfólki er gert ókleift að sinna störfum sínum.

Höfundur er lögmaður.


Um höfund.

Undirritaður er lögmaður og var framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á árunum 2002-2009. Síðan þá hefur undirritaður látið sig heilbrigðiskerfið varða á margvíslegan hátt. M.a. með stundakennslu við Læknadeild HÍ frá árinu 2009 og kennt þar um þagnarskyldu lækna. Frá árinu 2022 einnig sinnt stundakennslu hjá 6. árs læknanemum um löggjöf á sviði heilbrigðismála.

Ég þekki Tómas Guðbjartsson ekki persónulega. Á árum mínum sem framkvæmdastjóri Læknafélagsins hitti ég Tómas nokkrum sinnum en ekki síðar.

Magnús Karl þekki ég ekki persónulega en hitti hann í einhver skipti á árum mínum hjá Læknafélaginu.

Runólf Pálsson forstjóra Landspítala og Björn Zoega stjórnarformann Landspítala þekki ég ekki en hef hitt báða.

Sigurð Guðna Guðjónsson lögmann þekki ég ekki en hef hitt.

Hef notið þjónustu starfsmanna Landspítalans margítrekað, þó aldrei Tómasar, og er atvinnumaður í nokkrum sjúkdómum sem sjúklingur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×