Innlent

Hraða­­sektir dauða­­dómur fyrir suma en aðrir finni ekkert fyrir þeim

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hákon Jónsson, kvikmyndagerðarmaður og íbúi við Hringbraut.
Hákon Jónsson, kvikmyndagerðarmaður og íbúi við Hringbraut. Vísir/Steingrímur Dúi

Ökumaður undir áhrifum fíkniefna olli stórtjóni þegar hann ók á átta bíla við Hringbraut í morgun. Íbúi segir ofsaakstur á svæðinu hafa verið vandamál til margra ára. Hann kallar eftir því að hraðasektir taki mið af tekjum ökumanna.

Klukkan sex í morgun barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að ekið hafði verið á fjölda bíla við Hringbraut í Reykjavík. Ökumaðurinn var ungur karlmaður undir áhrifum fíkniefna og hann var handtekinn á staðnum.

Atvikið átti sér stað  fyrir framan Verkamannabústaðina. Þeir íbúar sem fréttastofa hefur rætt við í dag vöknuðu margir hverjir við lætin hér og þustu út á náttfötunum til þess að freista þess að sjá hvað hafði gerst. Íbúar hafa lengi kvartað yfir ofsaakstri við Hringbraut.

„Það er talsvert um hraðakstur og ofsaakstur þarna. Umferðin, það hefur hægst á henni, en sérstaklega á sumrin, sér maður að bílar, venjulega í dýrari kantinum, sveigja á milli akreina, fara yfir á rauðu og á ofsahraða. Síðasta sumar varð ég vitni að því oftar en einu sinni í viku að maður sæi Land Rover Defender af nýjustu gerðinni sveigja yfir á beygjuakrein til þess að komast fram úr bílum til að fara yfir á rauðu og svo kannski annar Audi-jeppi á eftir,“ segir Hákon Jónsson, íbúi við Hringbraut. 

Hákon kallar eftir því að sektarupphæðir taki mið af tekjum þeirra sem greiða þær. Hann efast um að veski þeirra sem bruna á Hringbraut á stórum jeppum finni mikið fyrir sektunum eins og þær eru í dag.

Frá vettvangi í dag.Vísir/Steingrímur Dúi

„Kannanir sýna að þriðjungur heimila ræður ekki við áföll upp á áttatíu þúsund eða meira. Fyrir þeim er hraðasekt dauðadómur, það er svangur mánuður, skortur á íþróttaskóm fyrir krakkana. Fyrir önnur heimili er það kvöld úti á Fiskmarkaðnum,“ segir Hákon. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×