Viðskipti innlent

Brjóta verði upp fá­keppnis­að­stöðu skipa­fé­laganna tveggja

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR funduðu með borgar- og hafnaryfirvöldum í Reykjavík vegna samkeppni í flutningi og fákeppnisstöðu Eimskipa og Samskipa.
Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR funduðu með borgar- og hafnaryfirvöldum í Reykjavík vegna samkeppni í flutningi og fákeppnisstöðu Eimskipa og Samskipa. Vísir/Vilhelm

Fé­lag at­vinnu­rek­enda, Neyt­enda­sam­tökin og VR funduðu í dag með borgar- og hafnar­yfir­völdum í Reykja­vík til að ræða sam­keppnis­um­hverfið í Sunda­höfn, í fram­haldi af á­kvörðun Sam­keppnis­eftir­litsins vegna sam­ráðs stóru skipa­fé­laganna tveggja.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér til fjölmiðla.

Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri; Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna og Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri.

Þar segir að á fundinum hafi komið fram skýr pólitískur vilji borgaryfirvalda til að fylgja eftir tilmælum SKE um „að tryggt verði að nýir og minni aðilar geti fengið aðstöðu og viðeigandi þjónustu, sem geri þeim kleift að keppa, án mismununar, við stærri aðila í sjóflutningum“. 

Enn fremur segir að vinna sé hafin á vegum Faxaflóahafna við að breyta rekstrarlíkani Sundahafnar þannig að fleiri skipafélög hafi aðgang að hafnaraðstöðu og þjónustu.

Hagsmunamál að brjóta upp fákeppnisaðstaða skipafélaganna sé brotin upp

Samtökin þrjú taki höndum saman í málinu af því þau telji það stórt hagsmunamál fyrirtækja, neytenda og launþega að „fákeppnisaðstaða Eimskips og Samskipa í Sundahöfn verði brotin upp og þannig búið um hnútana að önnur skipafélög fái sanngjarnan aðgang að þjónustu og aðstöðu“ í stærstu vöruflutningahöfn landsins. 

Þá segir að á fundinum hafi verið bent á að flutningskostnaður væri stór áhrifaþáttur í almennu vöruverði og skipti miklu máli á tímum verðbólgu.

Fram kom að vinna væri hafin á vegum hafnanna við að efla samkeppni og bæta aðgang keppinauta Samskipa og Eimskips að aðstöðu og þjónustu. Hins vegar væri það hvorki einfalt verkefni né fljótunnið.

Samtökin segja fundinn hafa verið jákvæðan og að þau muni áfram vinna að því að þrýsta á stjórnvöld að bregðast við tilmælum Samkeppniseftirlitsins og tryggja virka samkeppni í vöruflutningum. Samtökin séu nú að vinna að mati á því tjóni, sem samráð stóru skipafélaganna olli fyrirtækjum og neytendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×