Fótbolti

Brassar búnir að finna nýjan lands­liðs­þjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dorival Júnior (til hægri) tekur við brasilíska karlalandsliðinu af Fernando Diniz (til vinstri).
Dorival Júnior (til hægri) tekur við brasilíska karlalandsliðinu af Fernando Diniz (til vinstri).

Dorival Júnior hefur verið ráðinn nýr þjálfari brasilíska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann tekur við starfinu af Fernando Diniz sem var rekinn á föstudaginn.

Tite hætti sem þjálfari Brasilíu eftir HM 2022 þar sem Brassar féllu úr leik fyrir Króötum í átta liða úrslitum. Ramon Menezes stýrði brasilíska liðinu fyrst í stað áður en Diniz var ráðinn. Brasilía vann hins vegar aðeins tvo af sex leikjum undir hans stjórn og hann var látinn taka pokann sinn í síðustu viku.

Brasilíska knattspyrnusambandið vildi fá Carlo Ancelotti til að taka við landsliðinu en ekkert verður af því þar sem hann skrifaði undir nýjan samning við Real Madrid á dögunum.

Dorival hættir hjá Sao Paulo til að taka við brasilíska landsliðinu. Undir hans stjórn varð Sao Paulo brasilískur bikarmeistari í fyrra. Þar áður stýrði Dorival Flamengo og gerði liðið að bikar- og Suður-Ameríkumeisturum 2022. 

Hinn 61 árs Dorival hefur einnig stýrt Atletico Mineiro, Athletico Paranaense, Internacional, Vasco da Gama, Fluminense, Snatos og Palmeiras auk annarra minni liða á þjálfaraferlinum.

Dorival stýrir Brasilíu í fyrsta sinn í vináttulandsleikjum gegn Englandi og Spáni í mars. Fyrsti keppnisleikurinn er svo gegn Ekvador í undankeppni HM 2026 í september. Brassar eru í 6. sæti Suður-Ameríkuriðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×