Erlent

Reyndi að svipta sig lífi og vill losna úr ein­angrun

Samúel Karl Ólason skrifar
Anders Behring Breivik í dómsal í morgun.
Anders Behring Breivik í dómsal í morgun. EPA/CORNELIUS POPPE

Norski fjöldamorðinginn og hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik vill losna úr einangrun. Hann hefur höfðað mál gegn norska ríkinu og segir aðstæður hans í fangelsi brjóta gegn mannréttindum en lögmaður hans sagði í gær að Breivik hefði reynt að svipta sig lífi í fangelsi.

Breivik myrti átta með bílsprengju í Osló árið 2011. Í kjölfarið skaut hann 69 manns til bana í Útey, áður en hann var handtekinn. Hann var árið 2012 dæmdur í 21 árs fangelsisvist, sem hægt er að framlengja svo hann sitji inni það sem eftir er ævinnar.

Hann hefur ávallt setið í einangrun í fangelsi og sóttist eftir reynslulausn í fyrra. Þeirri beiðni var hafnað.

Norska ríkisútvarpið segir að þegar Breivik mætti í íþróttasal Hringaríkisfangelsisins, sem breytt hefur verið í dómsal vegna málsins, í morgun, hafi hann ekki heilsað að nasistasið eins og hann hefur yfirleitt gert hingað til. Þá ávarpaði hann ekki fólkið í salnum.

Lögmaður Breiviks segir einangrunina haf komið verulega niður á honum og hann þjáist af sjálfsvígshugsunum. Þá segir lögmaðurinn að Breivik hafi reynt að svipta sig lífi á undanförnum sex árum.

Eins og áður segir afplánar Breivik í Hringaríkisfangelsinu, sem er skammt frá Útey. Hann sat áður í Þelamerkurfangelsinu en var fluttur í fyrra.

Sjá einnig: Breivik fluttur í annað fangelsi

Ríkissaksóknari Noregs segir aðstæður Breiviks í fangelsi nægilega góðar. Í fangelsi hefur Breivik aðgang að eigin stofu og eldhúsi og hefur hann einnig aðgang að líkamsræktarbúnaði.

Réttarhöldin eiga að standa yfir alla vikuna og á Breivik að bera vitni á morgun.


Tengdar fréttir

„Hryðjuverkamaðurinn var einn af okkur“

Tíu ár eru liðin í dag frá voðaverkunum í Osló og Útey, þar sem norskur hryðjuverkamaður myrti 77 manns, aðallega ungmenni í Norska verkamannaflokknum. Fórnarlambanna var minnst víða um heim og minnt á að sjónarmiðin sem hvöttu Anders Behring Breivik til ofbeldisverkanna séu síður en svo útdauð í nútímasamfélagi.

Sagðist innblásinn af Anders Breivik

Ástralski hryðjuverkamaðurinn sem myrti fimmtíu manns í mosku á Nýja-Sjálandi á föstudag vildi hefna 11 ára gamllar stúlku sem lést í hryðjuverkaárás í Stokkhólmi árið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×