Fótbolti

Tæki­færi fyrir ís­lenska leik­menn að láta til sín taka um helgina

Aron Guðmundsson skrifar
Ísland á margar framúrskarandi knattspyrnukonur og er Gonzalo Zamorano, talsmaður Woman Goal, yfir sig hrifinn af gæðastigin í fótboltanum hér á landi. Spennandi æfingarbúðir verða haldnar í Miðgarði um helgina.
Ísland á margar framúrskarandi knattspyrnukonur og er Gonzalo Zamorano, talsmaður Woman Goal, yfir sig hrifinn af gæðastigin í fótboltanum hér á landi. Spennandi æfingarbúðir verða haldnar í Miðgarði um helgina. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Ís­lenskum knatt­spyrnu­konum gefst gott tæki­færi til þess að láta ljós sitt skína út í heim héðan af landi um komandi helgi.

Woman Goal stendur fyrir æfingum í Mið­garði í Garða­bæ um komandi helgi fyrir knattspyrnukonur, 17 ára og eldri, þar sem í boði er styrktar­samningur við Woman Goal og tæki­færi til þess að komast út í at­vinnu­mennsku. Mark­mið Woman Goal er að hvetja til eflingar kvennaknatt­spyrnu og er Ís­land fyrsta Evrópu­landið sem æfinga­búðirnar verða haldnar í.

Knatt­spyrnu­maðurinn Gonza­lo Zamora­no, sem leikið hefur við góðan orð­stír hér á landi undan­farin ár, er tengi­liður Woman Goal hér á landi.

Gonzalo Zamorano í leik með ÍA á móti Breiðabliki fyrir nokkrum árum síðanVísir/Daníel

„Við sjáum að kvenna­boltinn er í örum vexti og þurfum að auka sýni­leika og gefa kven­kyns leik­mönnum tæki­færi. Það er í grunninn aðal mark­mið Woman Goal. Að gefa þeim vett­vang til þess að sýna listir sýnar og veita þeim tæki­færi til að láta ljós sitt skína. Þær eiga það skilið.“

Um er að ræða verk­efni á heims­vísu en sam­bæri­legar æfinga­búðir hafa farið fram í öðrum löndum og stendur þetta tæki­færi kven­kyns leik­mönnum yfir sau­tján ára aldri til boða þeim að kostnaðar­lausu.

Þer í gegnum tengingu Gonza­lo við yfir­mann í­þrótta­mála hjá Woman Goal sem æfinga­búðir verða haldnar hér á landi um helgina.

„Ég hef sjálfur tekið eftir því yfir tíma minn á Ís­landi, og sagði honum það, hversu hátt gæða­stigið í fót­boltanum hér á landi er. Það er mjög hátt. Þetta er lítið sam­fé­lag en gæða­stigið er mjög hátt þrátt fyrir það, bæði í kvenna- og karla­boltanum. Í sam­einingu þurfum við bara að gefa þessum leik­mönnum sviðið og leyfa þeim að láta ljós sitt skína.“

Og vísar Gonza­lo þar í vilja Woman Goal í að starfa með fót­bolta­fé­lögum til þess að auka sýni­leika og tæki­færi fyrir kven­kyns leik­menn.

„Það er mikil­vægt að fólk á Ís­landi viti að Womans Goal er ekki að fara halda þessar æfinga­búðir á Ís­landi í þeim til­gangi að stela leik­mönnum. Þetta er ekki um­boðs­skrif­stofa. Þetta snýst bara, eins og ég hef sagt áður um sýni­leika og tæki­færi.“

Klippa: Fá gullið tækifæri til að láta ljós sitt skína

Nánari upp­lýsingar um æfingar­búðir Womans Goal má finna hér. Þá er hægt að skrá sig í æfinga­búðirnar í gegnum þennan hlekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×