Innlent

Nóttin gekk vel þrátt fyrir mikla ölvun

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þessi mynd var tekin um miðnætti í gær þegar landsmenn fögnuðu.
Þessi mynd var tekin um miðnætti í gær þegar landsmenn fögnuðu. vísir/egill

Nýársnótt gekk vel fyrir sig, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og engin „stór mál“ rötuðu á borð lögreglu. Fjórir gistu í fangaklefum í morgun sem telst mjög lítið að morgni nýársdags. 

Í tilkynningu lögreglunnar segir að skemmtanahald hafi farið að mestu vel fram. Mikið hafi verið um ölvun og að koma hafi þurft nokkrum til aðstoðar við að komast til síns heima. 

Í Miðbæ og Vesturbæ voru þrír handteknir vegna aksturs undir áhrifum áfengis, einn vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna. Þá var tilkynnt um undmenni inn á skemmtistað og réttindalausa dyraverði. Óskað var eftir aðstoð lögreglu við að vísa manni út úr partíi í miðbænum og manni var vísað úr anddyri fjölbýlishúss þar sem hann hafði stöðugt hringt dyrabjöllum og haldið vöku fyrir íbúum. 

Greint var frá því í morgun að eldur hafi komið upp í bílskúr við Kjóahraun í Hafnarfirði skömmu eftir miðnætti. Þá var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar í Hafnarfirði. 

Í Breiðholti var maður, í annarlegu ástandi vegna ölvunar og fíkniefna, handtekinn vegna vandræða á bar. Sá var vistaður í fangaklefa. Þá þurfti að stilla til friðar á stigagangi í fjölbýlishúsi þar sem að til slagsmála kom. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×