Erlent

Danskt fragtskip hæft af eld­flaug

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mikið hefur verið um árásir af þessum toga í Rauðahafinu síðan stríð hófst í Palestínu. Skipið á myndinni er ekki skipið sem fjallað er um í greininni.
Mikið hefur verið um árásir af þessum toga í Rauðahafinu síðan stríð hófst í Palestínu. Skipið á myndinni er ekki skipið sem fjallað er um í greininni. EPA/Mads Claus Rasmussen

Danskt fragtskip í eigu olíu- og flutningarisans Mærsk var hæft af eldflaug í gærkvöldi á siglingu um Rauðahafið. Þessu greinir DR frá.

Skipið bar nafnið Maersk Hangzhou og sigldi undir fána Singapúrs. Samkvæmt upplýsingum frá miðlægri stjórnstöð Bandaríkjahers, Centcom, var árás gærkvöldsins sú 23. í röð árása Hútana í Jemen á alþjóðaskipasiglingar á svæðinu. Centcom segir að skipið sé þó sjófært og að engan hafi sakað.

Tilkynnt var um árásina klukkan 18:30 í gærkvöldi á íslenskum tíma. Tvö skip úr flota Bandaríkjanna komu til aðstoðar og annað skaut tvær aukalegar eldflaugar niður. Centcom fullyrðir að Hútar beri ábyrgð á árásinni.

Árásin kemur í kjölfar tilkynningar danska utanríkisráðuneytisins um að það hyggist senda freigátu til Rauðahafsins til að bregðast við og afstýra slíkum uppákomum.

Rauðahafið er ein fjölfarnasta siglingaleið heims. Þar hafa Hútar á undanförnum vikum skotið eldflaugum og flogið sjálfsprengidrónum að nokkrum flutningaskipum, en að auki bandarískum og frönskum herskipum. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.


Tengdar fréttir

Danir senda freigátu í Rauðahafið

Danir ætla að senda freigátu í Rauðahafið og Adenflóa sem öryggisráðstöfun í kjölfar fjöldamargra árása Húta á svæðinu. Þetta segja utanríkisráðherra Lars Løkke Rasmussen og varnamálaráðherra Troels Lund Poulsen.

Enn eitt skipið fyrir eldflaug á Rauðahafi

Enn eitt flutningaskipið varð fyrir eldflaug á Rauðahafi í gærkvöldi. Eldflauginni mun hafa verið skotið frá yfirráðasvæði Húta í Jemen, eins og öðrum eldflaugum, en eldur kom upp í skipinu þegar eldflaugin hæfði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×