Enski boltinn

Chris Wood með þrennu gegn gömlu fé­lögunum

Dagur Lárusson skrifar
Chris Wood lék á alls oddi í dag.
Chris Wood lék á alls oddi í dag. Vísir/getty

Chris Wood skoraði þrennu gegn sínum gömlu félögum í dag er Nottingham Forrest gerði sér lítið fyrir og vann Newcastle á St. James Park.

Nuna Esperito Santo stýrði Nottingham Forrest í annað sinn í dag en hann tapaði sínum fyrsta leik með liðið gegn Bournemouth á heimavelli síðustu helgi.

Gengi Newcastle hefur verið lélegt síðustu vikurnar en liðið hefur tapað hverjum leiknum á fætur öðrum og var engin breyting á í dag.

Allt virtist þó ætla að ganga vel hjá Newcastle snemma leiks þegar Alexander Isak náði að krækja í vítaspyrnu á 23. mínútu. Svíinn fór sjálfur á punktinn og skoraði og staðan því orðin 1-0 fyrir Newcastle.

Gestirnir voru alltaf hættulegir með skyndisóknir sínar og var Anthony Elanga öflugastur hjá þeim. Hann fékk boltann í uppbótartíma fyrri hálfleiks þar sem hann kom sér inn á teig, framhjá Livramento og gaf boltann síðan fyrir markið á Chris Wood sem þurfti lítið annað að gera en að koma boltanum yfir línuna. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum urðu skyndisóknir gestanna enn þá öflugri og náði Anthony Elanga aftur að finna Chris Wood í góðri stöðu á 53. mínútu. Í þetta skiptið þurfti Chris Wood þó að gera mikið meira en hann lék á Dan Burn og vippaði boltanum síðan yfir Dubravka í markinu og staðan orðin 1-2.

Chris Wood fullkomnaði síðan þrennuna á 60. mínútu þegar hann fékk hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn Newcastle frá Murilla. Nýsjálendingurinn lék þá á Dubravka, fór framhjá honum og kom boltanum síðan í netið. Staðan orðin 1-3 og Chris Wood með þrennu gegn sínum gömlu félögum.

Eftir leikinn er Nottingham Forrest komið með 17 stig og situr í 16. sæti á meðan Newcastle er í 7. sætinu með 29 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×