Innlent

Átta sækja um em­bætti for­stjóra Veður­stofunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Á Veðurstofunni starfa um 145 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræða­svið. Auk þess starfa um 70 manns við athugana- og eftirlitsstörf víðsvegar um landið.
Á Veðurstofunni starfa um 145 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræða­svið. Auk þess starfa um 70 manns við athugana- og eftirlitsstörf víðsvegar um landið. Veðurstofan

Átta sóttu um embætti forstjóra Veðurstofu Íslands sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið auglýsti laust til umsóknar í síðasta mánuði.

Á vef stjórnarráðsins segir að valnefnd sem skipuð hafi verið af umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra muni meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til ráðherra.

Umsækjendur eru:

  • Fannar Karvel Steindórsson, framkvæmdastjóri
  • Haraldur Ólafsson, prófessor
  • Hildigunnur Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri
  • Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugunar- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands
  • Ívar Kristinsson, sérfræðingur
  • Matthew James Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknasviðs Veðurstofu Íslands
  • Sigríður Auður Arnardóttir, fyrrverandi ráðuneytisstjóri
  • Sigurður Erlingsson, rekstrarhagfræðingur

Nýr forstjóri mun taka við stöðunni af Árna Snorrasyni, en umsóknarfrestur rann út 11. desember næstkomandi.

Í auglýsingunni kom fram að forstjóri beri ábyrgð gagnvart ráðherra í samræmi við lög og skipurit stofnunarinnar og móti helstu áherslur, verkefni og starfshætti Veðurstofunnar, auk þess að bera stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri og faglegri starfsemi stofnunarinnar.

„Leitað er að leiðtoga sem hefur framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi. Viðkomandi þarf að vinna vel undir álagi og vera agaður og skilvirkur í vinnubrögðum. Mikilvægt er að viðkomandi hafi góða hæfni í að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku. Við mat á umsækjendum verður jafnframt miðað við kjörmynd stjórnenda út frá stjórnendastefnu ríkisins.“

145 starfsmenn

Á Veðurstofunni starfa um 145 manns með fjölbreytta menntun og starfsreynslu sem spannar mörg fræða­svið. Auk þess starfa um sjötíu manns við athugana- og eftirlitsstörf víðsvegar um landið.

„Helstu verkefni Veðurstofu Íslands eru að annast vöktun vegna náttúruvár, að sjá um rekstur veðurfræðilegra grunnkerfa og annast veðurþjónustu. Auk þess að sinna vatnamælingum og að annast mælingar á snjóalögum. Einnig sinnir stofnunin mælingum á hvers kyns jarðhræringum auk þess að safna upplýsingum um eldgos og öskufall en jafnframt að vinna hættumat vegna náttúruhamfara ásamt öðrum rannsóknum á starfssviði stofnunarinnar,“ sagði á vef stjórnarráðsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×