Innlent

„Þetta verður löng nótt, það liggur fyrir“

Jakob Bjarnar skrifar
Fannar segir gosið svo nýhafið að hann viti ekki mikið enn sem komið er. En miðað við vefmyndavélar virðist vera um heljarinnar gos, svona í upphafshrinum.
Fannar segir gosið svo nýhafið að hann viti ekki mikið enn sem komið er. En miðað við vefmyndavélar virðist vera um heljarinnar gos, svona í upphafshrinum. vísir/vilhelm

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík segir að nokkur hundruð metrar geti skipt öllu, hvert hrauntaumurinn fari.

Fannar vissi næsta lítið um gosið eins og flestir, en hafði þó verið í sambandi við nokkra aðila þegar Vísir náði í hann.

„Menn vita afar lítið enn sem komið er en menn eru að reyna að átta sig á þessu.“

Fannar segir að menn hafi séð þetta í vefmyndavél og af þeim að sjá, úr fjarlægð, þá virðist vera um þó nokkuð mikið gos að ræða.

„Ég er bara, eins og fleiri, að reyna að fá upplýsingar. En þetta virðist heilmikið gos í upphafshrinum.“

Fannar segist ekki vita um staðsetningu gossins sem stendur.

„Nei, ég er ekki kominn með staðsetninguna ennþá. En þetta getur skipt nokkrum hundruðum metra með hana hvert hrauntaumurinn liggur,“ segir bæjarstjórinn og er þá að hugsa um sitt byggðarlag.

„En maður veit ekkert ennþá. Þetta verður löng nótt. Það liggur fyrir,“ sagði Fannar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×