Erlent

Tveggja milljóna evra virði af far­angri rænt af flug­vellinum á Tenerife

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hundruðum milljóna króna hefur verið stolið af sólarferðalöngum.
Hundruðum milljóna króna hefur verið stolið af sólarferðalöngum.

Spænska lögreglan hefur handtekið fjórtán manns og rannsakað aðra 20 fyrir að hafa rænt tæplega tveggja milljón evra virði af farangri á Tenerife Sur-flugvellinum. Allir voru þeir starfsmenn flugvallarins.

Rannsókn lögreglunnar á flugvallarstarfsmönnum hófst eftir að tilkynningum um þjófnað og verðmæti í óskilum fjölgaði gríðarlega. El Diario de Avisos, kanarískur fjölmiðill, greinir frá því að hópur starfsmanna hafi nýtt sér aðstöðu sína til að ræna töskum áður en þær bárust á farangursbeltið.

Þeir hafi opnað töskurnar þar sem þær lágu í farangursrými nýlentra flugvéla og látið greipar sópa um innihald þeirra. Að því loknu hafi þeir lokað töskunum á ný og komið þeim til skila á farangursbeltið til farþega.

Þar kemur einnig fram að hópurinn hafi starfað skipulega og að hver ræningi hafi haft sitt hlutverk í aðgerðunum. Einn hefur ákveðið hvaða flug skyldi ræna, annar sá um að fela ránsfenginn og enn annar um sölu á því sem stolið var í skartgripaverslum eyjunnar eða yfir internetið.

Samkvæmt spænsku lögreglunni fundust 29 nýju lúxusúr, 120 skartgripir, 22 farsímar, þrettán þúsund evrur í reiðufé og meira að segja farartæki sem keypt hafði verið fyrir ávinninginn.

Íslendingar hafa meðal annars orðið fyrir barðinu á farangursræningjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×