Innlent

Bökkuðu bíl inn í Nova og stálu símum

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Skjótt var brugðist við hjá Nova í nótt og plötur settar í stað rúðanna.
Skjótt var brugðist við hjá Nova í nótt og plötur settar í stað rúðanna. Vísir/Margrét Björk

Innbrot var framið í verslun Nova í Lágmúla í Reykjavík í nótt. Bíl var bakkað inn í verslunina áður en innbrotsþjófarnir létu greipar sópa.

Eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni var brugðist hratt við hjá Nova í morgun og var verslunin opnuð á hefðbundnum opnunartíma. Búið er að festa plötur í stað rúðanna sem brotnuðu við innbrotið í nótt.

Séð innan úr verslun Nova.Vísir/Margrét Björk

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var einhverju magni af snjallsímum stolið úr versluninni en enn er verið að meta tjónið. 

Verslunarstjóri Nova sagðist ekki geta tjáð sig um málið í samtali við fréttastofu í morgun þar sem hún hefði takmarkaðar upplýsingar. Hún vísaði á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.

Óverulegt tjón

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi, staðfesti að bíl hefði verið bakkað inn í verslunina og talsvert miklu hefði verið stolið. Enn eigi eftir að fara yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum og því liggi ekki fyrir hversu margir hafi verið á ferðinni.  Hann hafði ekki nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Uppfært klukkan 11:00

Í samtali við fréttastofu segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, að ekki sé rétt að miklu hafi verið stolið, aðeins örfáum tækjum. Mesta tjónið sé vegna skemmda á rúðunni sem var bakkað inn um. 

„Þetta er óverulegt tjón miðað við allt. Viðbragsaðilar, Öryggismiðstöðin og lögregla, brugðust skjótt við þannig þjófarnir höfðu lítinn tíma.“

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova segir tjónið óverulegt miðað við fjölda tækja í verslununni og á lager. Nova

Verslun Nova í Lágmúla er í gamalli Landsbankabyggingu. Þjófarnir komust ekki inn á lager verslunarinnar sem Margrét segir að sé vel varinn í gömlu peningageymslu bankans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×