Körfubolti

Sonur LeBrons lék fyrsta leikinn eftir hjartastoppið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bronny James fagnar eftir að hafa skorað sína fyrstu körfu fyrir University of Southern California.
Bronny James fagnar eftir að hafa skorað sína fyrstu körfu fyrir University of Southern California. getty/Katelyn Mulcahy

Bronny James, sonur körfuboltagoðsagnarinnar LeBrons James, lék um helgina sinn fyrsta leik eftir að hann fór í hjartastopp í sumar.

Bronny kom inn af bekknum og lék sinn fyrsta leik fyrir University of Southern Carolina þegar liðið tapaði fyrir Long Beach State, 84-79.

Bronny fór í hjartastopp á æfingu með USC í sumar. Hann var í kjölfarið greindur með meðfæddan en meðhöndlanlegan hjartagalla og fór í aðgerð.

Í síðasta mánuði fékk Bronny grænt ljós á að byrja að æfa á ný og hann spilaði svo sinn fyrsta leik eftir hjartastoppið í gær. Hann lék í sextán mínútur, skoraði fjögur stig, tók þrjú fráköst, gaf tvær stoðsendingar og stal boltanum í tvígang.

Eftir að hafa leitt Los Angeles Lakers til sigurs í deildarbikar NBA var LeBron mættur á leikinn hjá syni sínum í gær. 

LeBron var skiljanlega að springa úr stolti og skrifaði fallega um Bronny á Instagram eftir frumraunina með USC.

„Get ekki sagt ykkur öllum hversu tilfinningaríkur dagurinn var! Ég er búinn á því og eina sem ég get sagt er að þú ert ótrúlegur Bronny. Skítt með sigra og töp sem koma. Þú hefur þegar unnið stærsta sigurinn sem er LÍFIÐ!!!“ skrifaði LeBron.

Bronny var sjálfur ánægður eftir leikinn. „Ég vil bara segja að ég er þakklátur fyrir allt,“ sagði strákurinn í viðtali. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×