Innlent

Böðuðu sig í lokuðu Bláa lóninu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eins og sjá má voru að minnsta kosti um tíu manns að njóta lífsins í Bláa lóninu í dag.
Eins og sjá má voru að minnsta kosti um tíu manns að njóta lífsins í Bláa lóninu í dag. Vísir/Vilhelm

Fólk naut þess að baða sig í Bláa lóninu í dag. Lónið hefur verið lokað almenningi síðan 9. nóvember vegna hættu á eldgosi í Svartsengi og nágrenni.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á svæðinu við Grindavík í dag og myndaði stöðuna í bænum. Þar er unnið hörðum höndum að því að fylla í sprungur auk þess sem holur finnast hér og þar í bæjarfélaginu sem fólk þarf að hafa varann á.

Vilhelm myndaði Bláa lónið úr lofti og kom honum í opna skjöldu að sjá mátti fólk njóta sín í fallega veðrinu í dag. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvaða fólk naut sín í heitu vatninu.

Vinnuvélar við varnargarðsvinnu nærri Bláa lóninu í dag.vísir/Vilhelm

Á heimasíðu Bláa lónsins segir að núverandi lokun Bláa lónsins, Silica hótels og Retreat hótels muni gilda til klukkan sjö að morgni fimmtudaginn 14. desember. Staðan verði endurmetin þá.

Neyðarstig almannavarna var um tíma á svæðinu en það var fyrir nokkru fært niður á hættustig.

Ekki hefur náðst í Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins, eða Grím Sæmundsen stærsta eiganda lónsins í kvöld þrátt fyrir endurteknar tilraunir.

Frétt uppfærð 9. desember kl. 09:18:

Í svörum frá Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins, segir að um sé að ræða starfsmenn. Þeir séu að undirbúa fyrirhugaða opnun lónsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×