Innlent

Í­búa­fundur fyrir Grind­víkinga á þriðju­dag

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, hefur boðað til íbúafundar fyrir Grindvíkinga í Laugardalshöll á þriðjudaginn í næstu viku.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, hefur boðað til íbúafundar fyrir Grindvíkinga í Laugardalshöll á þriðjudaginn í næstu viku. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjóri Grindavíkur hefur boðað til íbúafundar fyrir Grindvíkinga í Laugardalshöll þriðjudaginn 12. desember næstkomandi.

Þetta kemur í pistli Fannars Jónassonar, bæjarstjóra, sem birtist á vef Grindavíkurbæjar í dag. Þar segir að dagskrá fundarins verði auglýst þegar nær dregur en að íbúum muni gefast tækifæri til að bera fram spurningar.

Í pistlinum tekur Fannar saman fréttir undanfarinnar viku af Grindavík og mikilvægar upplýsingar fyrir Grindvíkinga. 

Hann greinir meðal annars frá því að Grindvíkingar megi eingöngu vera í Grindavík á milli 7 og 17 og atvinnustarfsemi megi ekki vera lengur en til 21 á daginn. Þá nefnir hann sértækan húsnæðisstuðning sem Grindvíkingar hafa hlotið vegna hamfaranna og var samþykktur á Alþingi í vikunni og leigutorgið sem opnaði í dag fyrir Grindvíkinga.  

Einnig greinir hann frá því að skólaskylda fyrir grunnskólabörn frá Grindavík muni taka aftur gildi 4. janúar 2024. Skólasókn grunnskólabarna frá Grindavík er að sögn Fannars um 95 prósent þó þau séu á víð og dreif um landið. Börnin ganga nú í samtals 65 skóla í 28 sveitarfélögum um allt land.

Þá kemur fram í pistlinum að í gær, fimmtudaginn 7. desember, var haldinn súpufundur í Reykjanesbæ sem var fjölsóttur meðal atvinnurekenda í Grindavík. Þar var jarðvísindamaður frá Veðurstofu Íslands til svars auk þess sem fulltrúi frá Vinnumálastofnun fór yfir þætti sem snúa að launagreiðslum og öðru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×