Erlent

Há­marks­hraði 80 prósent gatna í Amsterdam verður 30 km/klst

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Breytingarnar eru sagðar munu krefjast smá aðlögunartíma.
Breytingarnar eru sagðar munu krefjast smá aðlögunartíma. Amsterdam

Frá og með deginum í dag verður hámarkshraðinn á 80 prósent gatna í Amsterdam 30 km/klst. Breytingin á að verða til þess að fækka alvarlegum slysum um 20 til 30 prósent.

Frá þessu er greint á heimasíðu Amsterdam.

„Það mun að sjálfsögðu taka tíma að venjast nýjum hámarkshraða, sérstaklega fyrir fólk sem er við stýrið á hverjum degi. En í borginni okkar viljum við sýna öðrum tillitsemi,“ segir á heimasíðunni.

Þar segir að ökumenn muni nú hafa meiri tíma til að bregðast við óvæntum atvikum og að hemlunarvegalengdin fari úr 27 metrum í 13 metra. Þá séu 95 prósent líkur á að gangandi vegfarandi lifi það að verða fyrir bifreið sem ekið er á 30 km/klst.

„Við teljum líka að hávaðinn frá umferð muni minnka um helming. Borgin verður hljóðlátari og ánægjulegri staður.“

Hraðatakmörkin munu gilda fyrir allar bifreiðar, rafskútur og -hlaupahjól og hefðbundin reiðhjól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×