Golf

LIV „stal“ Masters­meistaranum af PGA: „Vona að þeir verði á­fram vinir mínir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jon Rahm fékk að klæðast hinum eftirsótta græna jakka eftir sigur hans á Augusta í apríl síðastliðnum.
 Jon Rahm fékk að klæðast hinum eftirsótta græna jakka eftir sigur hans á Augusta í apríl síðastliðnum. Getty/Ross Kinnaird

Jon Rahm staðfesti í gær að hann er búinn að gera samning við LIV mótaröðina og Sádarnir eru því enn að „stela“ frábærum kylfingum af bandarísku mótaröðinni.

„Þetta var gott tilboð,“ sagði Jon Rahm í viðtalinu við FOX þar sem hann staðfesti samninginn.

Það er óhætt að segja það ef farið er eftir heimildir bandarísku fjölmiðlanna.

Samkvæmt þeim þá er Rahm að fá um 560 milljónir dollara fyrir þennan langtíma samning eða 78 milljarða íslenskra króna.

Hinn 29 ára gamli Rahm vann Mastersmótið á þessi ári en vann líka opna bandaríska meistaramótið árið 2021. Hann er einn af stærstu stjörnum bandarísku mótaraðarinnar og þriðji á heimslistanum.

Þetta er stór sigur fyrir LIV mótaröðina því Rahm er einn af þeim sem hefur gagnrýnt hana hvað mest. Hann gagnrýndi fyrirkomulagið, fjölda móta og að það væri enginn niðurskurður svo eitthvað sé nefnt.

„Ég vil spila á móti þeim bestu í heimi og undir fyrirkomulagi sem hefur verið til staðar í meira en hundrað ár,“ sagði Rahm árið 2022.

Hann talaði líka um það að hann vildi halda áfram hjá PGA þar sem goðsagnir eins og Jack Nicklaus, Arnold Palmer og Tiger Woods höfðu spila á undan honum.

„Ég vona að þeir verði áfram vinir mínir af því að ég mun ekkert breytast,“ sagði Rahm.

Hann vildi ekki staðfesta hvað hann fengi fyrir samninginn. „Ég mun ekki tjá mig um það og vil það heldur ekki. Það er mitt einkamál og verður það áfram,“ sagði Rahm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×