Innlent

Fimm­tíu nýjar dýnur frá föngum til neyðarskýla borgarinnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, ásamt starfsfólki Njálsgötu, Páli og Stellu.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, ásamt starfsfólki Njálsgötu, Páli og Stellu. Afstaða

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, afhenti neyðarskýlum Reykjavíkurborgar að Lindargötu og Granda, ásamt úrræði Reykjavíkurborgar á Njálsgötu, nýjar dýnur í gær.

Guðmundur Ingi, formaður Afstöðu afhenti Heiðu Björg Hilmisdóttur, formanni Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dýnurnar í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Um er að ræða fimmtíu sérhannaðar dýnur, af tegund sem meðal annars eru notaðar á sjúkrahúsum, Dýnurnar eru því sérlega vel fallnar til notkunar á fyrrnefndum stöðum, þar sem skjólstæðingar Reykjavíkurborgar gista. 

„Afstaða sinnir mörgum einstaklingum sem glíma við heimilisleysi, vímuefnaraskanir og önnur félagsleg vandamál og er alltaf einhver hluti þeirra í úrræðum Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningu frá Afstöðu. Landspítalanum og Sigurði Reynissyni (SÖR) er þakkað sérstaklega fyrir þeirra aðstoð.

„Það er með mikilli ánægju og hlýhug sem Afstaða afhendir Reykjavíkurborg dýnurnar, nú þegar kuldinn og myrkrið er sem mest – en líka þegar hátíð ljóss og friðar gengur í garð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×