Skoðun

Er of vont veður á höfuð­borgar­svæðinu fyrir al­mennings­sam­göngur?

Davíð Þorláksson skrifar

Höfuðborgarsvæðið með sína tæplega 250 þúsund íbúa er það 12 fjölmennasta á Norðurlöndum. Það telst því meðal meðalstórra Norrænna borga. Allar borgir á Norðurlöndum eru markvisst að reyna að minnka hlutdeild bílferða í daglegum ferðum íbúa til að bæta umferðarflæði og draga úr útblæstri.

Sú leið sem farin var hér byggði á greiningum innlendra og erlendra sérfræðinga í skipulags- og samgöngumálum og var niðurstaðan að lang heppilegast væri að ráðast í gerð Borgarlínu, BRT- kerfis (bus rapid transit) til að bæta samgöngur til lengri tíma. Það þýðir einfaldlega að megin fjárfestingin felst í að leggja sér akbrautir fyrir strætisvagna, sem verða þá eins konar hraðbrautir milli hverfa auk þess að byggja upp vandaðar stöðvar sem eru aðgengilegar fyrir öll. Vagnar aka með hárri tíðni milli helstu hverfa, hratt og vel í gegnum höfuðborgarsvæðið og verða ekki fastir í umferð.

Því er stundum haldið fram að of vont veður sé á Íslandi til þess að hægt sé að fjölga ferðum förnum í almenningssamgöngum. Þegar borgir Norðurlanda á svipuðum breiddargráðum eru skoðaðar þá sést að þær eru flestar, ef ekki allar, með hærra hlutfall ferða í almenningssamgöngum í dag og stefna á hærra hlutfall til framtíðar

Það má líka sjá í ferðavenjukönnunum höfuðborgarsvæðisins að hlutfall ferða í almenningssamgöngum, gangandi og hjólandi er t.d. talsvert hærri í Laugardalnum og Vesturbænum heldur en í úthverfum og hinum sveitarfélögunum. Það blasir við að það er ekki vegna þess að þar sé betra veður. Eftir að hafa búið í Vestubænum um árabil get ég sagt að veður þar er ekki betra, nema síður sé.

Skýringin er einföld. Þar sem er fjárfest í góðum almenningssamgöngum þar eru þær vel nýttar. Við mannskepnan erum í raun ekki flóknari en þetta: Við notum það sem er gott frekar en það sem er það ekki.

Höfundur er framkvæmdastjóra Betri samgangna ohf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×