Innlent

Starfskonur lög­reglunnar leigðu strippara í Auschwitz

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Starfsmenn ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru til skoðunar vegna meintra viðskipta við fatafellu.
Starfsmenn ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru til skoðunar vegna meintra viðskipta við fatafellu. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru til skoðunar vegna máls sem upp kom í kjölfar vinnuferðar til Auschwitz í Póllandi í nóvember. Kynningarfulltrúi embættisins segir málið litið alvarlegum augum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru það starfsmenn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem eru í brennidrepli vegna atviks sem upp kom í ferðinni þegar erindum tengdum vinnunni var formlega lokið.

Vinnuferðin, sem var til bæjarins Oswiecim, sem er betur þekktur undir þýska nafninu Auschwitz, í Póllandi, var farin í síðasta mánuði og varð hópur starfsmanna eftir þegar henni lauk en hluti hópsins fór heim. Samkvæmt heimildum fréttastofu var það yfir helgina sem fylgdi sem kvenkyns starfsmenn ákærusviðs skelltu sér út á lífið, leigðu limmósínu og keyptu þjónustu karlkyns fatafellu. 

„Ég get staðfest að mál starfsmanna hjá embættinu eru til skoðunar vegna háttsemi í vinnuferð erlendis í síðasta mánuði,“ segir í skriflegu svari Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við fyrirspurn fréttastofu.

„Málið er litið alvarlegum augum enda eru ríkar kröfur gerðar til starfsmanna embættisins um að vera til fyrirmyndar í hvívetna.“ 

Gunnar sagðist ekki geta tjáð sig frekar um mál einstakra starfsmanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×