Innlent

Segir ríkis­stjórnina skila auðu í bar­áttunni við verð­bólguna

Heimir Már Pétursson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Formaður Viðreisnar gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag fyrir aðgerðarleysi í baráttunni við verðbólgu og háa vexti. Það eina sem ríkisstjórnin hyggðist gera til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs væri flatur niðurskurður án allrar forgangsröðunar. Ekkert væri gert til að draga í raun úr útgjöldum ríkissjóðs.

„Verðbólgan er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Háir vextir eru líka á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í landinu. Auðvitað eru aðrir aðilar; vinnumarkaðurinn og Seðlabankinn. En það gengur ekki að ríkisstjórnin trekk í trekk skili auðu af því hún nennir ekki að taka óþægilegu samtölin við ríkisstjórnarborðið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Fjármálaráðherra segir launahækkunum frekar um að kenna

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra sagðist auðvitað ekki sammála því að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á þeirri miklu verðbólgu sem verið hefði í landinu.

„Þar með er ég ekki að draga úr því hlutverki sem stjórnvöld hafa. Fjárveitingarvaldið og svo framvegis í því verkefni. En ef við greinum hvað það er sem keyrir áfram verðbólguna, eru það auðvitað fyrst og fremst, eða það vegur þyngst, þær miklu launahækkanir undanfarinna ára umfram framleiðnivöxt í landinu,“ sagði Þórdís Kolbrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×