Erlent

Segir Talíbana mögu­lega myndu láta undan al­þjóð­legum þrýstingi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hamidi hefur talað fyrir því að stúlkur verði menntaðar innan trúarlegra stofnana, sem er leyfilegt, en aðrir segja þá menntun yrðu mjög takmarkaða.
Hamidi hefur talað fyrir því að stúlkur verði menntaðar innan trúarlegra stofnana, sem er leyfilegt, en aðrir segja þá menntun yrðu mjög takmarkaða. epa/Samiullah Popal

Margir embættismenn Talíbana styðja endurskoðun banns gegn menntun stúlkna. Þetta segir Rangina Hamidi, sem var menntamálaráðherra áður en Talíbanar komust aftur til valda í Afganistan.

Afganistan er eina ríkið í heiminum sem bannar menntun stúlkna og kvenna eldri en ellefu ára en konur hafa einnig verið útilokaðar frá flestum störfum og jafnvel opinberum rýmum.

Hamidi, sem nýlega heimsótti Afganistan, segir hins vegar að ákveðin sundrung ríki meðal Talíbana hvað varðar menntun stúlkna og að mögulega myndu stjórnvöld láta undan ef nægilegur þrýstingur myndaðist utan frá.

„Talíbanar eru ekki einn stólpi. Það er skoðanaágreiningur á milli þeirra eins og hjá öllum öðrum hópum. Og það er ljóst, sérstaklega hvað varðar bannið gegn menntun stúlkna, að það eru margir innan Talíbana sem styðja að snúa því við.“

Hamidi segir að hvort sem erlend ríki viðurkenni Talíbana sem réttmæt stjórnvöld eða ekki, sé stjórn þeirra daglegur veruleiki 40 milljón manna, helmingur þeirra kvenna og stúlkna. Það sé átakanlegt að vandræðagangur erlendra ríkja gagnvart Talíbönum sé að koma niður á þessum hóp.

Afstaða Hamidi vakti athygli á ráðstefnu UN Girl's Education Initiative í Istanbul á dögunum en viðbrögðin voru misjöfn. Sumir þátttakendur ráðstefnunar frá Afganistan lýstu sig mótfallna því að „normalisera“ samskipti við Talíbana, sem ynnu markvisst að því að takmarka réttindi kvenna.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×